Jóhann Karl, fyrrverandi konungur Spánar sem liggur undir grun um spillingu, hefur tilkynnt að hann ætli í útlegð.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá spænsku konungshöllinni.
„Til að geta þjónað almenningi á Spáni, stofnunum landsins og ykkur sem konungur, tilkynni ég ykkur að ég ætla í útlegð frá Spáni,“ sagði hann í bréfi til sonar síns, Filippusar Spánarkonungs.
Jóhann Karl hefur þvertekið fyrir að afsala sér titli sínum sem „konungur emeritus“ eftir að upp komst um leyndar bankabækur hans í Sviss. Hann afsalaði sér krúnunni árið 2014 í kjölfar orðróms um vafasamt einkalíf hans. Við krúnunni tók sonur hans Filippus.
Jóhann Karl var á sínum tíma í miklum metum á Spáni eftir að hafa tekið við krúnunni við andlát einræðisherrans Francos, fyrir hans tilstuðlan, en átt lykilþátt í því að gera Spán að lýðræðisríki.
Árið 2018 hófu saksóknarar í Sviss rannsókn á leyndum auðæfum Jóhann Karls í Sviss eftir fjölmiðlaumfjöllun um 100 milljóna dala gjöf konungs Sádi-Arabíu til Spánarkonungs árið 2008 en rannsóknin snýr að því hvort gjöfin hafi tengst því að spænsku fyrirtæki var úthlutað 6,7 milljarða evra samningi um byggingu hraðlestar frá Medínu til Mecca í Sádi-Arabíu.