Ný brú vígð í stað þeirrar sem hrundi

Nýja brúin í Genúa.
Nýja brúin í Genúa. AFP

Ítalir taka í notkun nýja brú í borginni Genúa á Ítalíu í dag í stað brúnarinnar yfir Morandi-hraðbrautina sem hrundi með þeim afleiðingum að 43 fórust.

Næstum tvö ár eru liðin síðan harmleikurinn átti sér stað. Við athöfnina í dag munu þotur fljúga um loftin blá með ítalska þjóðfánann á sama tíma og þjóðsöngurinn ómar.

Morandi-brúin var viðhaldsfrek. 43 létust er hún hrundi í ágúst.
Morandi-brúin var viðhaldsfrek. 43 létust er hún hrundi í ágúst. AFP

Forsetinn Sergio Mattarella verður sá fyrsti til að fara opinberlega yfir nýju brúna sem arkitektinn Renzo Piano hannaði. Fjórir róbótar munu hafa eftirlit með því hvort þörf sé á að gera við brúna en gamla brúin var viðhaldsfrek. 

Mörg skyldmenni þeirra sem fórust ætla ekki að vera viðstödd athöfnina. „Við verðum ekki viðstödd opnunina, við viljum ekki að harmleikurinn breytist í partí,“ sagði Egle Possetti, sem missti systur sína í slysinu 14. ágúst 2018. Eiginmaður systurinnar og tvö börn þeirra fórust sömuleiðis.

„Það er í lagi að halda svona stóra hátíð ef þú brýtur niður brú vegna þess að hún er gömul, þú smíðar nýja og enginn hefur dáið.“

Reiknað er með því að opna mannvirkið fyrir almennri umferð á miðvikudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert