Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að samfélagsmiðlinum vinsæla TikTok verði lokað í Bandaríkjunum ef hann verður ekki seldur bandarísku fyrirtæki fyrir 15. september.
„Ég lagði til dagsetningu í kringum 15. september og þá verður því lokað í Bandaríkjunum,“ sagði forsetinn við blaðamenn um fyrirtækið.
„Því verður lokað 15. september nema Microsoft eða einhverjir aðrir geta náð samningi og keypt það.“
Í morgun kom fram að Microsoft hefði staðfest að það ætlaði að hefja viðræður að nýju um kaup á bandaríska hluta TikTok. Microsoft gerði hlé á viðræðum við kínverska fyrirtækið Bytedance um möguleg kaup á TikTok eftir að Trump lét í ljós að hann væri andsnúinn slíkum viðskiptum.
Hann hefur látið hafa eftir sér að hann vilji banna TikTok í Bandaríkjunum af ótta við að samfélagsmiðillinn sé notaður sem njósnatæki fyrir Kínverja.