Styttist í að Boeing 737 Max taki flugið

AFP

Stjórnendur bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing vonast til þess að 737 MAX-farþegaþota félagsins geti tekið flugið að nýju snemma á næsta ári. Þoturnar hafa verið kyrrsettar síðan í mars 2019 eftir tvö flugslys sem kostuðu 346 lífið.

Flugmálastjórn Bandaríkjanna, Federal Aviation Administration (FAA), hefur nú sent yfirvöldum langan lista yfir breytingar sem gera þarf áður en Boeing 737 MAX-þoturnar fara í loftið að nýju með farþega.

Boeing vonast til þess að þessum breytingum verði lokið á næstunni þannig að farþegaflug geti hafist að nýju snemma á næsta ári að því er segir í frétt BBC.

Þær lúta meðal annars að uppfærslu hugbúnaðar stýrikerfis vélanna auk fleiri liða. 

Fastlega er gert ráð fyrir að Boeing muni notfæra sér flugherminn á Gatwick-flugvelli í London við þjálfun á 737 Max-vélarnar en þar er British Airways með aðstöðu. Móðurfélag BA, IAG, skrifaði undir kaupsamning á 200 Boeing 737 Max-farþegaþotum í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert