Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að bandaríska ríkisstjórnin ætti að fá hluta kaupverðs TikTok ef bandarískt fyrirtæki kaupir forritið.
Forsetinn segist hafa krafist þess að fá „drjúgan hluta“ kaupverðsins í símtali við yfirmann Microsoft um helgina. Í símtalinu hótaði forsetinn einnig að banna TikTok í Bandaríkjunum ef kaupin ná ekki fram að ganga fyrir 15. september.
„Bandaríkin ættu að fá mjög stóra prósentu af þessu verði, af því að við erum að gera þetta mögulegt,“ hefur BBC eftir forsetanum. „Þetta kæmi frá sölu sem enginn annar myndi hugsa um en ég, en ég hugsa bara svona, og ég held að þetta sé mjög sanngjarnt.“
Forsetinn hefur sakað TikTok og önnur kínversk tæknifyrirtæki um njósnir fyrir kínversk yfirvöld í Bandaríkjunum.