Allt að 300 þúsund íbúar höfuðborgar Líbanons, Beirút, eru heimilislausir í kjölfar tveggja stórra sprenginga á hafnarsvæði borgarinnar í gær.
Þetta segir ríkisstjóri Beirút og að tjónið sem varð í sprengingunum, sem hafði áhrif á yfir helming borgarinnar, hlaupi á þremur til fimm milljörðum bandaríkjadala.
Rauði krossinn í Líbanon hefur staðfest að á annað hundrað séu látnir og á fimmta þúsund slasaðir eftir sprengingarnar.
Talið er að kviknað hafi í vöruskemmu þar sem forsetinn Michel Aoun segir að 2.750 tonn af ammóníumnítrati hafi verið geymd við óviðunandi aðstæður. Ammóníumnítrat er notað til áburðarframleiðslu en er mjög eldfimt og gjarnan notað af hryðjuverkamönnum, en ekki er talið að um hryðjuverk hafi verið að ræða í Beirút í gær.
Aoun hefur boðað ríkisstjórn Líbanons á sinn fund í dag þar sem hann mun óska eftir því að neyðarástandi verði lýst yfir í landinu næstu tvær vikurnar, en vísa hefur þurft slösuðum frá sjúkrahúsum vegna anna eftir sprengingarnar. Þá hefst þriggja daga þjóðarsorg í dag, miðvikudag.