Ríkissaksóknarinn í New York-ríki hefur greint frá því að hann muni höfða mál til að leysa upp Samtök skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum, NRA, vegna meints fjármálamisferlis.
Þetta kemur fram á vef BBC.
Ríkissaksóknarinn, Letitia James, segir að samtökin hafi flutt milljónir dala inn á reikninga stjórnenda samtakanna, þar á meðal Wayne LaPierre, framkvæmdastjóra NRA, sem þeir hafi síðan nýtt í eigin þágu.
James segir að misferlið hafi staðið yfir árum saman og stefnt sé að því að leysa samtökin upp.
Forsvarsmenn NRA hafa ekki tjáð sig um málið.