Dómstóll í kínversku borginni Guangzhou dæmdi nýverið kandískan ríkisborgara til dauða fyrir framleiðslu ketamíns. Meintur vitorðsmaður fékk lífstíðardóm. Þetta er þriðji Kanadamaðurinn sem dæmdur er til dauða í Kína síðan forstöðumaður kínverska tæknirisans Huawei var handtekinn í Vancouver í Kanada síðla árs 2018. BBC greinir frá.
Fjölmiðlar í Guangzhou í suðurhluta Kína greindu fyrst frá málinu og sögðu að kanadíski ríkisborgarinn Xu Wihong og vitorðsmaður hans Wen Guanxiong, hafi byrjað að framleiða ketamín í október 2016. Lögregluyfirvöld í Guangzhou haldlögðu 120 kíló af efninu við húsleit á heimili Xu Wihong, eins og kemur fram í frétt kínverskra fjölmiðla.
Ketamín er sterkt deyfilyf sem sérstaklega er ætlað til dýralækninga, þá sérstaklega til meðferðar hrossum. Lyfið nýtur síaukinna vinsælda sem vímugjafi, þá notaður af fólki í afþreyingarskyni.
Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins segir í tilkynningu að engin tenging sé milli málsins og sístirðnandi sambands Kínverja og Kanadamanna. Dómstólar í Kína hafi farið í einu og öllu eftir kínverskum lögum og að dauðadómar í fíkniefnamálum eins og þessum, hjálpi til við að útrýma slíkum glæpum í landinu.
Í frétt BBC um málið kemur fram að tveir aðrir kanadískir ríkisborgarar hafi hlotið dauðadóm fyrir kínverskum dómstólum í fyrra. Í desember2018 hafi svo tveir kanadískir ríkisborgarar verið teknir höndum af kínverskum lögregluyfirvöldum, grunaðir um njósnir.