Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hefur verið sakaður um að hafa sent sveit leigumorðingja til Kanada til að drepa Saad al-Jabri, fyrrverandi leyniþjónustumann Sádi-Arabíu.
Meint misheppnuð tilraun Salmans á að hafa átt sér stað stuttu eftir að blaðamaðurinn Jamal Khasoggi var myrtur í Tyrklandi árið 2018, að því er fram kemur í dómsskjölunum sem lögð voru fram í Bandaríkjunum í dag.
Jabri hefur búið í Kanada allt frá því hann flúði frá Sádi-Arabíu fyrir þremur árum síðan.
Hin meinta tilraun Salmans mistókst eftir að kanadískir landamæraverðir urðu tortryggnir gagnvart leigumorðingjunum þegar þeir reyndu að komast inn í landið á Pearson flugvellinum í Toronto í Kanada, að því er fram kemur í áðurnefndum dómsskjölum.
Jabri er 61 árs gamall en hann var um árabil lykilmilliliður fyrir MI6 deild bresku leyniþjónustunnar og aðrar vestrænar leyniþjónustur hvað varðar Sádi-Arabíu.
Ásökunin á hendur Salman var lögð fram í 106 blaðsíðna dómsskjali og er Salman þar sagður hafa ætlað að stuðla að morði Jabri til þess að þagga niður í honum.
Jabri segist sjálfur búa yfir upplýsingum sem gætu komið Salman illa. Um er að ræða upplýsingar um spillingu og eftirlit með teymi málaliða sem gengur undir nafninu Tiger Squad. Teymið var flækt í morðið á Khasoggi sem var drepinn inni á ræðismannsskrifstofu Sáda í Istanbúl árið 2018, að því er fram kemur í dómsskjölunum.
„Fáir búa yfir viðkvæmari og meira niðurlægjandi upplýsingar um sakborninginn bin Salman en Saad al-Jabri,“ segir í dómsskjölunum.