Saklaus eftir 27 ár í fangelsi

AFP

Karlmaður í austurhluta Kína hefur verið sýknaður og látinn laus úr haldi eftir 27 ár í fangelsi. Maðurinn hafði verið ranglega sakfelldur fyrir morð á tveimur ungum strákum árið 1993. 

Zhang Yuhuan segist hafa verið pyntaður af lögreglu sem þvingaði hann til að játa á sig morðin. Zhang sat inni lengst allra þeirra fanga sem hafa verið ranglega sakfelldir í Kína, alls 9.778 daga í fangalesi í Jiangxi-héraði. 

Saksóknarar fóru fram á endurupptöku málsins og segja að játning Yuhuans hafi verið í ósamræmi við glæpinn sjálfan. Yuhuan gekk frá endurupptökunni sem frjáls maður þar sem ekki þóttu næg sönnunargögn til að viðhalda sakfellisdómnum. 

Myndir á kínverskum samfélagsmiðlum sýna tilfinningaþrungna endurfundi Yuhuans og 83 ára gamallar móður hans. 

Fram kemur á BBC að Yuhuan hafi verið tilkynnt að hann eigi rétt á skaðabótum vegna fangelsisvistarinnar. 

Yuhuan var handtekinn árið 1993 þegar lík tveggja ungra stráka sem bjuggu í nágrenni við hann fundust. Hann var dæmdur til dauða árið 1995 en dómnum var síðar breytt í lífstíðarfangelsi. Yuhuan hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu, en áfrýjanir hans hafa í gegnum tíðina engan árangur borið. 

Ekki er vitað hver morðingi strákanna tveggja er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert