Fjórði Kanadamaðurinn dæmdur til dauða

Samband þjóðanna hefur verið mjög stirt síðan fjármálastjóri Huawei var …
Samband þjóðanna hefur verið mjög stirt síðan fjármálastjóri Huawei var handtekinn í Kanada í desember árið 2018. AFP

Kínverskur dómstóll í Guangdong-héraði dæmdi í dag kanadískan ríkisborgara til dauða fyrir framleiðslu ólöglegra fíkniefna. Er þetta annar Kanadamaðurinn sem dæmdur er til dauða í Kína á tveimur dögum og sá fjórði sem er dæmdur til dauða síðan í fyrra.

Kandadíski ríkisborgarinn Ye Jianhui fékk dóm í dag en annar kanadískur ríkisborgari, Xu Wihong, fékk dauðadóm í gær fyrir framleiðslu ketamíns og meintur vitorðsmaður hans fékk lífstíðardóm.

Í umfjöllun BBC sem greinir frá er bent á að samskipti Kanada og Kína hafi súrnað verulega síðan Meng Wanzhou, fjár­mála­stjóri hjá kín­verska tæknifyr­ir­tæk­inu Huawei, var handtekin í Kanada í desember árið 2018.

Segir engin tengsl vera til staðar

Wang Wenbin, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, neitaði fyrir að tengsl væru á milli handtöku Wanzhou og máls Jianhui. „Ég vil taka fram að kínversk dómsyfirvöld fjalla um mál í samræmi við kínversk lög og lögvenjur óháð öðrum málum. Dauðarefsingar fyrir alvarleg fíkniefnalagabrot hafa varnaðaráhrif og koma í veg fyrir slíka glæpi,“ sagði Wenbin.

Kínversk yfirvöld veita engar frekari upplýsingar um dóminn yfir Jianhui en kínverskir fjölmiðlar halda því fram að lögreglan hafi fundið rúmlega 218 kílógrömm af hvítum kristölum með MDMA í húsnæði sem Jianhui notaði ásamt fimm öðrum sem allir eru kínverskir ríkisborgarar.

Einn af fimmmenningunum var einnig dæmdur til dauða en hinir fengu dóma á bilinu sjö ár til lífstíðarfangelsis.

Á síðasta ári voru tveir kanadískir ríkisborgarar dæmdir til dauða vegna fíkniefnamála. Þá voru tveir kanadískir ríkisborgarar handteknir í desember árið 2018 sakaðir um njósnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka