Sprenging sem varð í Beirút fyrir helgi og eyðilagði stóran hluta borgarinnar skildi eftir sig gíg sem er 43 metra djúpur, að sögn öryggisfulltrúa á svæðinu sem vísaði í skýrslur frá frönskum sérfræðingum sem framkvæmdu mat á hamfarasvæðinu.
Alþjóðlegir leiðtogar munu funda í dag í þeim tilgangi að aðstoða Beirút, fimm dögum eftir að sprengingin átti sér stað. Fundurinn fer fram í fjarfundabúnaði og hefst klukkan ellefu fyrir hádegi að íslenskum tíma. Emmanuel Macron forseti Frakklands stendur fyrir fundinum ásamt Sameinuðu þjóðunum. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gefið það út að hann ætli að taka þátt í fundinum.
Tjónið sem sprengingin, sem varð í vöruhúsi á höfninni í Beirút, olli er metið á allt að 15 milljarða Bandaríkjadala. Að minnsta kosti 158 létust í sprengingunni, 5.000 slösuðust og 300.000 misstu heimili sín.
Í gær mótmæltu nokkur þúsund manns í Beirút ríkisstjórn Líbanons. Í sjónvarpsávarpi í gærkvöld sagði Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanons, að hann myndi óska eftir snemmbúnum kosningum til þess að leiða þjóðina út úr þeirri kreppu sem hún er í. Kosningarnar verða ræddar á líbanska þinginu á mánudag.
Líbanon var í djúpri efnahagskreppu og átti erfitt með að takast á við heimsfaraldur kórónuveiru áður en sprengingin varð. Mótmælahreyfing gegn ríkisstjórninni vaknaði í október síðastliðnum, knúin áfram af slæmri fjárhagsstöðu landsins og fallandi gjaldmiðli.