Átök brustust út í Hvíta-Rússlandi í kvöld á milli lögreglu og mótmælenda í kjölfar forsetakosninga sem þar fóru fram. Samkvæmt opinberri útgönguspá er útlit fyrir stórsigur Alexanders Lúkasjenkós, en hann hefur gegnt embættinu í 26 ár og er fyrsti og eini forseti landsins. Fékk hann í ár eitt sterkasta mótframboðið hingað til, frá Svetlönu Tsikanovskaju, en samkvæmt útgönguspánni fékk hún aðeins 6,8% atkvæða.
Hefur Tsikanovskaja þegar sett fram efasemdir um niðurstöður kosninganna, en í aðdraganda þeirra voru um tvö þúsund manns handteknir í landinu, meðal annars eiginmaður Tsikanovskaju sem hafði boðið sig fram til forsetaembættisins. Samkvæmt útgönguspánni fékk Lúkasjenkó 79,7% atkvæða.
Eftir að kjörstöðum var lokað flykktust mótmælendur út á götur höfuðborgarinnar Minsk og nokkurra annarra borga í landinu. Voru nokkur þúsund mótmælendur í miðborg Minsk, en þeim mættu nokkur hundruð lögreglumenn. Í beinni útsendingu á vegum Radio-Liberty, sem er rekin með stuðningi Bandaríkjanna, mátti sjá óeirðalögreglu kasta hvellsprengjum og fara fram gegn mótmælendum þar sem þeir flúðu undan henni.
Miðlar sem eru tengdir stjórnarandstöðunni í Hvíta-Rússlandi hafa sagt að lögregla hafi beitt háþrýstibyssum og skotið gúmmíkúlum á mótmælendur, auk þess sem lögreglubíl hafi verið keyrt á hóp mótmælenda.
Sagði Tsikanovskaja á blaðamannafundi eftir að kjörstöðum var lokað að hún treysti ekki þeim niðurstöðum sem sýndu sigur Lúkasjenkós. „Ég trúi því sem ég sé og ég sé að meirihlutinn er með okkur.“ Sagði hún jafnframt að framboð sitt hefði unnið því þeim hefði tekist að vinna bug á ótta sínum.
Gert er ráð fyrir fyrstu tölum í nótt, en mikill viðbúnaður hefur verið vegna kosninganna. Þannig var mikill fjöldi herfarartækja á götum Minsk í dag, mörg hver búin vélbyssum. Var leitað í ökutækjum sem komu inn til borgarinnar og á fólki sem fór inn í opinberar byggingar.
Svetlana Tsikanovskaja er 37 ára enskukennari og þýðandi, sem kallar sjálfa sig „hefðbundna konu, móður og eiginkonu“. Steig hún inn í kosningabaráttuna eftir að yfirvöld tóku höndum eiginmann hennar, vinsælan bloggara úr röðum stjórnarandstöðunnar sem sjálfur hafði stefnt á framboð.
Í fyrstu fannst henni sviðsljósið óþægilegt, að því er segir í umfjöllun fréttaveitunnar AFP, en hefur unnið á og aflað stuðnings víða að með loforði sínu um að frelsa þá stjórnarandstæðinga sem yfirvöld hafa hneppt í fangelsi.
Hún hefur einnig sagst munu boða til nýrra kosninga sem gera myndu öllum stjórnarandstæðingum kleift að vera með. Í framboðshópi hennar, sem inniheldur aðeins konur, eru meðal annars eiginkona formanns eins stjórnarandstöðuflokks og kosningastjóri annars. Ætluðu eiginmenn þeirra að bjóða sig fram, en var annaðhvort meinað að gera það eða flúðu land vegna hótana.