20 milljónir til matvælaaðstoðar í Líbanon

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur ákveðið að íslensk stjórnvöld veiti tuttugu milljónum króna til matvælaaðstoðar í Líbanon vegna hamfarasprenginganna í Beirút í nýliðinni viku. Framlagið kemur til viðbótar því fé sem stjórnvöld verja nú þegar til mannúðaðstoðar í landinu. 

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Þar segir að fjárframlag íslenskra stjórnvalda fari til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og því sé ætlað að tryggja fæðuöryggi í Líbanon í kjölfar sprenginganna í höfuðborginni Beirút 4. ágúst. Framlagið til Matvælaáætlunarinnar bætist við þá mannúðaraðstoð sem íslensk stjórnvöld veita nú þegar til Líbanons.

Ekki færri en tvö hundruð fórust, þúsundir slösuðust og um þrjú hundruð þúsund misstu heimili sín. 

„Strax eftir sprengingarnar varð ljóst að þörfin fyrir neyðar- og mannúðaraðstoð yrði gríðarleg og því hétum við okkar stuðningi um leið. Nú liggur fyrir að okkar framlag nýtist best á sviði matvælaaðstoðar og því hef ég ákveðið að veita tuttugu milljónum króna sérstaklega til Matvælaáætlunarinnar svo styðja megi Líbana á þessum erfiðu tímum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. 

Í sprengingunum eyðilagðist mikilvægasta innflutningshöfn landsins auk kornforða og annarra matvælabirgða sem geymd voru á hafnarsvæðinu. Fæðuöryggi landsmanna er því afar ótryggt og var ástandið þó viðkvæmt fyrir sökum djúprar efnahagskreppu í Líbanon. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert