„Ég vil ekki deyja“

„Ég vil ekki deyja.“ Þetta var það fyrsta sem sex ára gamall sonur Hibu öskraði eftir að gríðarleg sprenging skók heimili þeirra í Beirút í síðustu viku. Talið er að um 100 þúsund börn séu heimilislaus vegna sprengingarinnar sem var svo öflug að hún náði yfir þremur stigum á  jarðskjálftamælum.

Börn í Beirút glíma nú við alvarlegar andlegar afleiðingar skjálftans enda léku hús borgarinnar á reiðiskjálfi og þau sem stóðu næst höfninni hrundu eins og spilaborg.Hiba segir að þegar sonur hennar sá að það blæddi úr honum þar sem gluggar íbúðarinnar splundruðust við sprenginguna hafi hann byrjað að æpa: Mamma ég vil ekki deyja. „Hvernig er þetta líf? Kórónuveira og sprenging!“ sagði drengurinn eftir sprenginguna. 

AFP

„Ímyndaðu þér þetta. Þetta er spurning frá barni sem er aðeins sex ára gamalt,“ segir Hiba. 

Hiba, sem er 35 ára tveggja barna móðir, segir að allt húsið hafi hrists til og frá þegar sprengingin varð 4. ágúst. Sonur hennar sat í stofusófanum og glerbrotum rigndi yfir hann. Í nokkrar sekúndur sat hann hreyfingarlaus í sófanum. Þá dró mamma hans hann út úr herberginu og skarst drengurinn á fótum við það. Að öðru leyti slapp hann ómeiddur líkamlega. En hann verður viti sínu fjær af hræðslu í hvert skipti sem hann heyrir hávaða segirHiba. 

AFP

Systir hans var aðeins sextán daga gömul þegar sprengingin reið yfir. Hún missti meðvitund í einhverjar mínútur og það voru erfiðar mínútur fyrir móðurina en Hiba hefur átt í erfiðleikum með brjóstagjöfina eftir áfallið. 

Að minnsta kosti 160 létust og yfir sex þúsund eru með líkamlega áverka eftir sprenginguna. Meðal þeirra eru börn. UNICEF varar við því að þau sem komust af muni eiga á hættu alvarlega áfallastreituröskun í kjölfarið. 

AFP

Í myndskeiði sem hefur verið dreift á samfélagsmiðlum má sjá barnsrödd kalla sprenging, sprenging, á meðan reyk leggur frá hafnarsvæðinu. Síðan heyrist: Mamma ég vil ekki deyja.

Móðir Alexöndru, þriggja ára gamallar stúlku sem lést í sprengingunni, segir í viðtali við líbanska sjónvarpsstöð að hún sé með samviskubit yfir því að hafa reynt að ala upp barn í svo óstarfhæfu landi. „Ég vil biðja Alexöndru afsökunar,“ segir hún. „Því ég fór ekki með hana frá Líbanon.“

AFP

Í yfirlýsingu frá Barnaheill, Save the Children, er varað við afleiðingunum ef ekkert verður að gert til að veita börnum sálrænan stuðning. Það geti haft afleiðingar til lengri tíma litið.

Anne-Sophie Dybdal, sem starfar á verndarsviði samtakanna, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að áhrifin geti orðið djúpstæð á börn. Þau upplifi martraðir, svefnvanda og óöryggi.

Sophia Maamari, sem er barnasálfræðingur, segir að börn sem verða fyrir áfalli sem þessu geti myndað annars konar raskanir og ótta. Jafnvel við að fara á klósett án foreldra. Hún segir að það besta sem foreldrar geti gert er að útskýra fyrir börnum sínum að ótti sé eðlileg tilfinning og að þeir hafi sjálfir orðið skelfingu lostnir við sprenginguna. 

Vefur Barnaheilla á Íslandi

Vefur UNICEF á Íslandi

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert