Andstæðingar stjórnvalda í Líbanon telja að afsögn ríkisstjórnar landsins muni ekki hafa í för með sér raunverulegar breytingar á stjórnkerfi landsins. Þannig getur ríkisstjórnin setið áfram þrátt fyrir að hafa sagt af sér þó völd hennar séu takmörkuð. Sömuleiðis hefur afsögnin ekki endilega í för með sér tafarlausar þingkosningar, að því er fram kemur í ítarlegri fréttaskýringu New York Times um málið.
Nokkrum dögum eftir að gríðarstór sprenging olli mikilli eyðileggingu í höfuðborg Líbanons, Beirút, dró að minnsta kosti 171 til dauða og skildi þúsundir eftir særð, sagði ríkisstjórn landsins af sér á mánudag, í kjölfar mikillar reiði óbreyttra borgara vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar.
Aðgerðasinnar, sem hafa lengi mótmælt gölluðu stjórnkerfi landsins sem sagt er fullt af spillingu og veitingarvaldi, og íbúar Líbanon sem eru reiðir stjórnvöldum fyrir aðgerðarleysi sem gæti hafa leitt til sprengingarinnar í Beirút, höfuðborg landsins, telja afsögnina þó ekki nóg, af framangreindum ástæðum.
Eins og stendur starfar ríkisstjórnin fyrrverandi sem utanþingsstjórn og einbeitir sér að því að bjarga því sem bjargað verður í kjölfar sprengingarinnar. Helsta höfn landsins er eyðilögð eftir sprenginguna en harmleikurinn varð þar. Þá eru innviðir eins og sjúkrahús mörg óstarfhæf vegna eyðileggingarinnar sem varð af völdum sprengunnar. Hundruð þúsunda misstu heimili sín í sprengjunni.
Þrátt fyrir að höfnin sé gjöreyðilögð hefur hún nú verið tekin í notkun að nýju, einungis viku eftir að hörmungarnar dundu yfir íbúa Beirút. Að sjálfsögðu er þó ekki hægt að nota höfnina eins og áður var og er hún einungis nýtt til að koma nauðsynjavörum til landsins, að því er fram kemur í umfjöllun Al Jazeera (https://www.aljazeera.com/news/2020/08/beirut-port-resumes-partial-operations-week-blast-200812111544497.html) um málið en Raoul Nehme, efnahagsráðherra Líbanons setti inn færslu á Twitter um málið í morgun.
Það að nýja ríkisstjórn vanti þýðir ekki endilega að gengið verði til kosninga.
Þegar Hassan Diab, forsætisráðherra Líbanons, tilkynnti að ríkisstjórnin, myndi segja af sér á mánudagskvöld minntist hann á að ríkisstjórnin myndi starfa sem utanþingsstjórn þar til ný ríkisstjórn væri tilnefnd. Margir telja að í millitíðinni verði pólitíkin í landinu nokkurn veginn lömuð.
Í afsagnarræðu sinni sagði Diab sjálfur að kenna mætti djúpri spillingu sem fyndist í öllum hlutum ríkisins um slæma efnahagsstöðu landsins, ekki ríkisstjórn hans.
Gamla ríkisstjórnin má halda áfram að hittast, eins og staðan er núna en hún hefur ekki völd til þess að leggja fram lagafrumvörp eða gefa út tilskipanir.
Stjórnkerfi Líbanons gerir ráð fyrir því að Michael Aoun, forseti Líbanons, megi tilnefna ríkisstjórn í samráði við þing landsins, án þess að gengið sé til kosninga að nýju. Forsetinn hefur þó verið þögull hingað til og má búast við því að bíða þurfi verulega lengi eftir breytingum á stjórnkerfi landsins.
Mótmæli gegn stjórnvöldum í Líbanon hafa haldið áfram þrátt fyrir afsögn ríkisstjórnarinnar en aðgerðarsinnar segja að afsögnin mæti ekki kröfum þeirra um að pólitíska elítan afsali völdum sínum.
Margir Líbanir telja að með afsögn ríkisstjórnarinnar standi þeir frammi fyrir sömu stöðu og síðasta haust þegar mótmælendur knúðu fram afsögn Saad Hariri, þáverandi forsætisráðherra landsins. Honum var ekki skipt út fyrr en í febrúar á þessu ári og tók Diab, sem nú hefur sagt af sér, þá við. Lítið breyttist í stjórnkerfi landsins eftir að Hariri var skipt út.