Þúsundir hafa verið handtekin og að minnsta kosti tveir hafa látist í mótmælum sem brotist hafa út eftir að talið var upp úr kjörkössunum í forsetakosningunum í Hvíta-Rússlandi þar sem forsetinn Alexander Lúkasjenkó var yfirlýstur sigurvegari.
Innanríkisráðuneytið segir lögregluna hafa tekið 700 manns höndum í gær. Þar með hafa 6.700 verið handteknir samkvæmt opinberum tölum.
Fregnir hafa borist af verkföllum í mörgum verksmiðjum í eigu ríkisins, þar sem verkamenn mótmæla einnig aðgerðum lögreglu. Til hundraða starfsmanna sást í dag ganga út úr vörubílaverksmiðju Belaz norðaustan við höfuðborgina.
Konur hafa víða um landið tekið höndum saman í dag og myndað keðjur til að fordæma það hvernig stjórnvöld hafa beitt sér gegn mótmælendum. Margir hafa klæðst hvítu og haldið á blómum um leið og kallað er eftir því að bundinn verði endi á ofbeldi lögreglu.