Skiptar skoðanir eru á samkomulagi Ísraels og Sameinuðu Arabísku Furstadæmanna.
Samkomulagið, sem fyrst var tilkynnt af Donald Trump forseta Bandaríkjanna, inniheldur loforð um að Ísraelar muni láta af fyrirætlunum sínum að innlima enn stærra svæði af Vesturbakkanum sem Ísraelar hernámu fyrir hálfri öld.
Í staðinn gerir samkomulagið ráð fyrir því að stofnað verði til opinberra diplómatískra tengsla milli ríkjanna, en þar til nú hefur Ísrael ekki átt í slíkum tengslum við Arabaríki við Persaflóa. Sameinuðu arabísku furstadæmin eru aðeins þriðja arabíska ríkið til að stofna til opinberra samskipta við Ísrael, en þegar hafa verið gerðir friðarsamningar milli Ísraels og Egyptalands annars vegar og Jórdaníu hins vegar.
Benjamin Netanyahu segir að samkomulagið tákni nýtt tímabil fyrir samband Ísraels og hins Arabíska heims. Í ræðu stuttu eftir að samkomulagið var tilkynnt gerði Netanyahu þann fyrirvara að Ísrael hyggist ekki láta alfarið af fyrirætlunum sínum að innlima svæði af Vesturbakkanum, heldur muni þau aðeins fresta þeim. „Við munum aldrei afsala okkur réttinum af landinu okkar,“ sagði Netanyahu.
Abdel Fattah al-Sisi, sem skrifaði undir friðarsamning fyrir hönd Egyptalands árið 1979 hrósaði samkomulaginu og óskar þess að það verði til þess að aukinn friður verði á svæðinu.
Forsetaefni Demókrata, Joe Biden fagnar samkomulaginu og vonast til að það muni vera skref í áttina að frið í Mið-Austurlöndunum. „Í dag tóku Ísrael og Sameinuðu Arabísku Furstadæmin sögulegt skref til að brúa það breiða bil sem myndast hefur í Mið-Austurlöndum,“ sagði Biden í tilkynningu á fimmtudag.
Yfirvöld í Barein og Bretlandi fagna einnig samkomulaginu, en Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands segir að það komi ekki í stað beinna viðræðna milli Ísraels og Palestínu, sem sé eina leiðin til að koma á friði á svæðinu.
Ekki eru allir ánægðir með samkomulagið.
Mahmud Abbas, forseti Palestínu hefur hafnað og fordæmt samkomulagið harðlega. Í tilkynningu segir Abbas samkomulagið sýna Palestínumönnum yfirgang og svíkja málstað þeirra, en hann hefur heimtað neyðarfund hjá Arababandalaginu.
Yfirvöld í Palestínu hafa einnig skipað sendiherra sínum í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum að yfirgefa ríkið.
Hamas, íslömsk samtök sem stjórna hluta Gasastrandarinnar, hafna samkomulaginu einnig. Í tilkynningu segir Hazem Qasem, talsmaður Hamas, að samkomulagið „þjóni ekki Palestínumönnum,“ og sé „verðlaun fyrir ísraelskt hernám og glæpi.“