Bresk yfirvöld hafa bætt Frakklandi og Hollandi á lista yfir þau lönd þar sem ferðamenn þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til Bretlands. Breytingin tekur gildi á morgun en auk þeirra hefur ferðamönnum frá Mónakó og Möltu auk bresku eyjanna Turks og Caicos og Arúba verið gert að fara í sóttkví.
Samgöngumálaráðherra Bretlands, Grant Shapps, segir að þetta hafi verið nauðsynlegt til að halda kórónuveirusmitum í lágmarki. Frakkar eru ekki sáttir við ákvörðun Breta og segja að þetta geti valdið verulegum vandræðum við Ermarsundið.
Ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar byggir á fjölgun smita í þessum löndum að undanförnu. Áður var Spánn kominn á þennan lista og segja stjórnendur bresku flugfélaganna að þetta sé enn eitt áfallið fyrir ferðaiðnaðinn sem nú glímir við verstu erfiðleikana sem hann hefur gengið í gegnum.
Talið er að um hálf milljón breskra ferðamanna séu þessa stundina í Frakklandi þannig að búast má við því að algjört öngþveiti verði í höfnum og flugvöllum þangað til breytingin tekur gildi klukkan 4 í nótt. Samkvæmt frétt BBC er álagið gríðarlegt á vef Ermarsundsganganna og nánast allar lestarferðir uppseldar.