Segist vilja koma í veg fyrir kosningasvindl

Trump er hræddur við kosningasvindl.
Trump er hræddur við kosningasvindl. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því í dag að hann væri vísvitandi að koma í veg fyrir fjárútlát til póstdreifingarinnar þar í landi, til að stemma stigu við að póstlögðum atkvæðaseðlum fjölgi. Þetta kom fram í viðtali við forsetann á Fox Business Network.

Er Trump hræddur um að utankjörfundaratkvæði kunni að kosta hann sigur í bandarísku forsetakosningunum í nóvember. Segir hann að slík atkvæði geti ýtt undir kosningasvindl, en gera má ráð fyrir að fjöldi einstaklinga vilji nýta sér umrædda leið sökum heimsfaraldurs kórónuveiru. 

Stoppar fjárveitingar til póstmiðstöðvarinnar

Demókratar hafi undanfarið reynt að koma í veg fyrir fjárhagsaðstoð til fyrirtækja og einstaklinga í Bandaríkjunum, Trump til mikillar mæðu. Hefur hann nú sagt að haldi mótþrói demókrata áfram verði bandaríska póstmiðstöðin fjársvelt. 

„Ef við náum ekki samningi fá þeir ekki peninga,“ sagði Trump í viðtali við þáttastjórnandann Maria Bartiromo. Bætti hann við að þar með yrðu engin utankjörfundaratkvæði. „Það þýðir að þeir fá ekki utankjörfundaratkvæðin, þau bara fá það ekki.“

Forsetinn fór um víðan völl í viðtalinu og ræddi þar m.a. um komandi kosningar. Sagði hann að líkur væru á því að hlutabréfamarkaðurinn hrynji nái mótframbjóðandi hans, Joe Biden, völdum í landinu.

„Ef Biden tekst að sigra þýðir það hrun á mörkuðum. Hann mun leggja skatt á þjóðina sem mun færa okkur aftur til kreppunnar miklu árið 1929,“ sagði Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert