Ný deild sem rannsakar fljúgandi furðuhluti

Bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon. AFP

Bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon, ætlar að stofna nýja deild sem mun rannsaka fljúgandi furðuhluti.

Deildin, sem verður undir stjórn sjóhersins, hefur skammstöfunina UAPTF. Varnarmálaráðuneytið vonast til að með henni muni „skilningur þess aukast á eðli og uppruna ókunnra fljúgandi hluta“, sagði talskonan Susan Gough í yfirlýsingu.

Bandaríski herinn hefur mestar áhyggjur af „ókunnum fyrirbærum á flugi“ sem tengjast andstæðingum á jörðu niðri en ekki grænum geimverum sem ætla að ráðast á jörðina.

Sérstakar áhyggjur eru uppi í Washington um mögulegar njósnir Kínverja með hjálp dróna og annarra tækja sem geta flogið.

„Markmið deildarinnar er að koma auga á, greina og flokka fljúgandi hluti sem geta mögulega ógnað bandarísku þjóðaröryggi,“ sagði Gough.

Í apríl síðastliðnum gaf bandaríska varnarmálaráðuneytið í fyrsta sinn út opinberlega þrjú myndskeið sem tekin voru af flugmönnum bandaríska hersins sem virðast vera af fljúgandi furðuhlutum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert