Verðbólga 840% í Simbabve

Efnahagsleg áhrif faraldursins hafa rist djúpt í Simbabve.
Efnahagsleg áhrif faraldursins hafa rist djúpt í Simbabve. AFP

Árleg verðbólga í Simbabve náði tæplega 840% í júlí. Þetta kemur fram í tölum hagstofu ríkisins. Simbabvebúar hafa þurft að glíma við rúman áratug af óðaverðbólgu í kjölfar óstjórnar Roberts Mugabe, fyrrverandi forseta Simbabve. Mugabe var steypt af stóli eftir valdarán hersins árið 2017.

Eftirmaður Mugabes, Emmerson Mnangagwa, lofaði að rétta efnahag landsins af þegar hann tók við stjórn landsins, en nú, þremur árum síðar, er efnahagur landsins enn í molum og matarskortur útbreiddur.

Í síðustu viku varaði Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) við því að fæðuöryggi um 60% Simbabvemanna væri í hættu.

Aðgerðirnar hefðu heppnast afar vel

Efnahagsleg áhrif kórónuveirufaraldursins hafa verið mikil í Simbabve, en margir íbúar landsins segja að efnahagurinn sé verr settur nú en hann var í valdatíð Mugabes. Herinn var kallaður til í Harare, höfuðborg Simbabve, í síðustu viku vegna mótmæla í borginni.

Mótmælin beindust gegn forsetanum og ríkisstjórn hans, sem hefur verið uppvís að spillingu og óstjórn, ekki síst í kjölfar heimsfaraldursins.

Tölur hagstofunnar um verðbólgu í júlímánuði komu fast á hæla tilkynningar frá forsetanum, þar sem hann fullyrti að aðgerðir sínar til að koma stöðugleika á hagkerfi landsins hefðu heppnast afar vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert