Tugþúsundir mótmæla nú í Hvíta-Rússlandi eftir að forseti landsins Alexander Lúkjasenkjó sagðist ekki ætla að stíga til hliðar. Lúkasjenkó er sagður hafa falsað niðurstöður nýafstaðinnar forsetakosningar. Mótmælin eru sögð vera söguleg og er mál manna að mótmæli hafi aldrei verið svo fjölmenn í Hvíta-Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna. Pútín Rússlandsforseti segist reiðubúinn að hjálpa til við að halda aftur af mótmælendum en hingað til hafa um sjö þúsund mótmælendur verið handteknir og tveir hafa látist í átökum við lögreglu.
Í kjölfar forsetakosninga í Hvíta-Rússlandi, sem fóru fram þann 9. ágúst síðastliðinn, hafa fjölmenn mótmæli átt sér stað um landið allt. Í Minsk, höfuðborg landsins, komu tugþúsundir saman til þess að mótmæla forsetanum en hann tilkynnti nýverið í ávarpi sínu að hann hyggðist ekki ætla að stíga til hliðar sem forseti. Hvíta-Rússland er oft sagt vera síðasta einræðisríki Evrópu en Alexander Lúkasjenkó hefur ráðið ríkjum í landinu síðan 1994 eða í 26 ár.
„Við erum að breyta sögunni.“ hefur AFP efir 26 ára gamalli konu úr hópi mótmælenda. „Við trúum því að nú rísi nýr dagur í Hvíta-Rússlandi. Ég er svo ánægð að fá að sjá þetta gerast með eigin augum.“ segir Darja Kúkta, sex barna móðir á fertugsaldri, við blaðamann AFP.
Andstæðingar forsetans kalla nú eftir því að verkamenn í ríkisreknum verksmiðjum um allt Hvíta-Rússland grípi til verkfalla í mótmælaskyni. Hundruð verkamanna lögðu niður störf á föstudag.
Í ávarpi sínu í Minsk í dag, biðlaði Lúkasjenkó til áheyrenda sinna að koma landi sínu til varnar. Opinber fjölmiðill í Hvíta-Rússlandi fullyrti að um 65 þúsund manns hafi hlýtt á ávarp forsetans en fréttamaður AFP segir töluna þó líklega nær 10 þúsund. Lúkasjenkó er ekki sagður koma fram oft með þessum hætti.
Lúkasjenkó sagði við stuðningsmenn sína: „Ég boðaði ykkur ekki hingað til að verja mig… heldur til þess að, í fyrsta sinn í aldarfjórðung, verja land ykkar og sjálfstæði.“ Lúkasjenkó bætti síðan við að nýafstaðnar kosningar hafi farið fram með heiðarlegum hætti. Ekki sé hægt að falsa 80% atkvæða.
Í nýafstöðnum kosningum hlaut Lúkasjenkó um 80% atkvæða en hann helsti mótfambjóðandi Svetlana Tsíkanovskaja hlaut einungis um 10%. Tsíkanovskaja hefur nú flúið Hvíta-Rússland af ótta við að vera tekin höndum. Eiginmaður hennar, sem Tsíkanovskaja er í raun að fylla í skarðið fyrir, var tekinn höndum af lögreglu vegna gruns um að hafa stofnað til óeirða. Tsíkanovskaja segist ætla að boða til nýrra kosninga ef Lúkasjenkó stígur til hliðar.
Erlend stjórnvöld hafa lýst yfir áhyggjum af kosningunum í Hvíta-Rússlandi og eru íslensk stjórnvöld þar á meðal, en Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lýsti yfir áhyggjum sínum yfir „kosningum sem væru vandkvæðum bundnar.“
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, var hins vegar einn þeirra fyrstu sem óskuðu Lúkasjenkó til hamingju með fimmta endurkjörið í röð, og bættist Xi Jiping, forseti Kína svo fljótt í hóp þeirra sem sendu Lúkasjenkó hamingjuóskir.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur rætt við Lúkasjenkó símleiðis í tvígang seinustu daga og boðið fram aðstoð sína við að halda mótmælendum í skefjum. Þetta segist Pútín vera ljúft og skylt að gera vegna aðildar Rússa og Hvítrússa að CSTO bandalagi ríkja hinna gömlu Sovétríkja. Meðal annarra aðildarríkja CSTO eru Georgía, Armenía, Kyrgistan og Kasakstan.
Mikill þrýstingur hefur verið frá aðildarríkjum Evrópusambandsins um að Lúkasjenkó verði við kröfum almennings um frjálsari og opnari kosningar, ellegar verði viðskiptaþvingunum beitt gegn Hvítrússum.