Svetlana Tsikanovskaja, sem bauð sig fram til embættis forseta í Hvíta-Rússlandi, segist reiðubúin til að taka yfir stjórn landsins. Hún er í sjálfskipaðri útlegð í nágrannaríkinu Litháen en í gær tóku tugþúsundir þátt í mótmælum í Hvíta-Rússlandi.
Ég hafði ekki áhuga á að verða stjórnmálamaður en örlögin ákváðu það að ég yrði í framlínunni gegn gerræðislegum og óréttlátum stjórnarháttum segir hún. „Ég er reiðubúin til þess að taka ábyrgð og gegna hlutverki þjóðarleiðtoga á meðan þessu tímabili varir,“ segir hún í myndskilaboðum.
Myndskeiðið var birt eftir að tugþúsundir tóku þátt í mótmælum í Minsk í gær þar sem endurkjöri Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, var mótmælt. Telja mótmælendur að maðkur hafi verið í mysunni við talningu atkvæða í forsetakosningunum fyrir rúmri viku. Samkvæmt tilkynningu frá yfirkjörstjórn fékk Lúkasjenkó um 80% atkvæða en Tsikanovskaja um 10%.
Tsikanovskaja er ný í stjórnmálum en hún ákvað að bjóða sig fram til embættis forseta þegar eiginmaður hennar, sem var í framboði, var fangelsaður. Hún hefur hvatt til þess að gengið verði til atkvæða að nýju.