Tómt sjónvarpsver blasti við áhorfendum

Mannlaust sjónvarpsver blasti við áhorfendum hvítrússneska ríkisútvarpsins í morgun.
Mannlaust sjónvarpsver blasti við áhorfendum hvítrússneska ríkisútvarpsins í morgun. Skjáskot/Twitter

Svo virðist sem þáttastjórnendur hvítrússneska ríkísútvarpsins hafi verið meðal þeirra þúsunda þar í landi, sem lögðu niður störf í gær. Áhorfendum mætti tómt fréttaver við upphaf beinnar útsendingar í gær. Mikil óánægja er með endurkjör Alexander Lúkasjenkó þar í landi og standa nú yfir stærstu mótmæli í sögu Hvíta-Rússlands.

Franak Viačorka, blaðamaður í Hvíta-Rússlandi, fullyrðir að um 600 starfsmenn hvítrússneska ríkisútvarpsins hafi lagt niður störf í dag og er þeim meinaður aðgangur að húsakynnum stöðvarinnar. Enn fremur segir Franak að útvarpsstjóri stöðvarinnar og stuðningsmaður Lúkasjenkó, Ivan Eismant, hafi sagt öllum þeim starfsmönnum upp, sem andsnúnir eru hvítrússneskum stjórnvöldum.

Franak birti á Twitter-síðu sinni í morgun myndband af tómu sjónvarpsveri hvítrússneska ríkisútvarpsins. Segir í færslu Franak að áhorfendur hafi séð mannlaust sjónvarpsverið og heyrt rólega undirtóna þáttarins óma. Þáttastjórnendur og aðrir starfsmenn stöðvarinnar eru sagðir hafa lagt niður störf til þess að sýna mótmælendum í landinu stuðning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert