Verksmiðjustarfsfólk púaði á forsetann

Í ræðu sinni í traktorverksmiðjunni sagðist Lúkasjenkó ekki ætla að …
Í ræðu sinni í traktorverksmiðjunni sagðist Lúkasjenkó ekki ætla að afsala sér valdi undir þrýstingi frá mótmælendum. Starfsfólk púaði á forsetann í lok ræðunnar. AFP

Verkafólk púaði á Alexander Lúkasjenkó, forseta Hvíta-Rússlands þegar hann heimsótti traktorverksmiðju í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, á mánudag. Ókyrrð ríkir í Hvíta-Rússlandi í kjölfar umdeildra forsetakosninga, þar sem forsetinn er borinn sökum að hafa falsað niðurstöður. BBC greinir frá.

Lúkasjenkó tilkynnti um helgina að hann myndi ekki stíga til hliðar, né myndi hann leyfa öðrum kosningum að fara fram. Í verksmiðjuheimsókninni sagði forsetinn: „Við héldum kosningarnar. Þangað til þið drepið mig verða engar aðrar kosningar.“

Þó sagðist hann vera tilbúinn að vísa málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu og afsala sér valdi í samræmi við stjórnarskrá landsins, en ekki vegna þrýstings frá mótmælendum.

Starfsfólk verksmiðjunnar púaði á Lúkasjenkó við lok ræðunnar.

Mótframbjóðandi Lúkasjenkós í forsetakosningunum, Svetlana Tikhanovsaya, hefur stungið upp á að hún myndi gegna hlutverki forseta til bráðabirgða, á meðan nýjar kosningar séu skipulagðar.

Stærstu mótmæli í sögu ríkisins hafa geisað síðustu daga, en framganga löggæsluliða gagnvart mótmælendum hefur víða verið gagnrýnd. Hundruð mótmæla hafa slasast og tveir hafa látist í átökum við lögreglu. Tæplega 7 þúsund manns hafa verið handtekin og öryggisþjónustan hefur verið sökuð um pyntingar á mótmælendum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert