Forseti og forsætisráðherra handteknir af uppreisnarmönnum

Mótmælendur fagna meðlimum hersins í kjölfar handtöku forseta og forsætisráðherra …
Mótmælendur fagna meðlimum hersins í kjölfar handtöku forseta og forsætisráðherra Malí. AFP

Hópur hermanna hefur numið forseta og forsætisráðherra Malí á brott. Atvikin koma í kjölfar dramatískrar atburðarásar sem hófst í morgun, sem kemur sjálf á hæla mánaðalangrar ólgu vegna umdeildra þingkosninga í ríkinu. Forsetinn, Ibrahim Boubacar Keita, og forsætisráðherrann, Boubou Cissé, voru báðir í forsetabústaðnum í höfuðborg Malí þegar uppreisnarmennirnir tóku þá höndum.

Nágrannaríki Malí í Vestur-Afríku, auk Frakklands, Evrópusambandsins og Afríkusambandsins, hafa fordæmt uppreisnina og varað við óstjórnskipulegu valdaráni í landinu. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Antonio Gutierres, hefur heimtað að forsetanum og forsætisráðherranum verði sleppt strax og skilyrðislaust.

Einn leiðtoga uppreisnarinnar sagði AFP að forsætisráðherrann og forsetinn væri nú á þeirra valdi eftir að hafa verið „handteknir“ í forsetabústaðnum.

Forsetinn umdeildur

Skothríð heyrðist í herstöð í námunda við Bamako, höfuðborg Malí, rétt fyrir klukkan 11 í morgun. Að sögn sjónarvotta skutu hermenn með byssum sínum upp í loftið, en þar með hófst uppreisn hóps hermanna á stöðinni. Hermennirnir handtóku yfirmenn herstöðvarinnar og tóku yfir stöðina.

Mikil ólga hefur verið í stjórnmálalífi Malí í kjölfar umdeildra þingkosninga sem fram fóru í mars og apríl síðastliðinn. Hefur það varpað skugga á kosningarnar að fjöldi manns var numinn á brott á meðan kosningunum stóð, þar á meðal meðlimir kjörstjórna og leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Einnig var brotist inn í kjörstaði og atvik þar sem reynt var að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu aðila í norðurhluta landsins.

Mótmælt hefur verið í miðborg Bamaki síðustu vikur. Mótmælendur hafa …
Mótmælt hefur verið í miðborg Bamaki síðustu vikur. Mótmælendur hafa kallað eftir afsögn forsetans. AFP

Mikil mótmæli hafa geisað í höfuðborginni síðan í júní og hafa mótmælendur heimtað afsagnar forseta landsins, Ibrahim Keita. Þegar fregnir bárust af uppreisn hermannanna braust út fögnuður meðal mótmælenda.

Forsetinn er óvinsæll í landi sínu. Síðan hann endurnýjaði embætti sitt í kosningum árið 2018 hafa komið fram ásakanir um spillingu og óstjórn kastað skugga á valdatíð hans. Öryggisástand ríkisins hefur einnig versnað af völdum aukins umsvifs jihadískra hryðjuverkamanna á svæðinu.

Forseti Malí Ibrahim Boubacar Keita hefur verið óvinsæll síðan hann …
Forseti Malí Ibrahim Boubacar Keita hefur verið óvinsæll síðan hann endurnýjaði embætti sitt í kosningum árið 2018. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert