Fann 1.200 ára gamalt sverð á akri

Fornminjaáhugamaðurinn Høystad-Lunna taldi málmleitartækið fyrst hafa gefið merki um eitthvert …
Fornminjaáhugamaðurinn Høystad-Lunna taldi málmleitartækið fyrst hafa gefið merki um eitthvert járnarusl sem lá grunnt í jarðveginum. Þar reyndist þó um að ræða mjög vel varðveitt sverð frá því um árið 800, eða frá upphafi víkingaaldar. Ljósmynd/Vegard Høystad-Lunna

Vegard Høystad-Lunna heitir maður, búsettur í Ringsaker í Innlandet-fylki norður af Ósló í Noregi. Høystad-Lunna starfar við birgðahald, er einstæður faðir með afkvæmi sitt hjá sér aðra hverja viku en á sér áhugamál sem er langt frá því að vera allra.

Þegar skyldum vinnu og uppeldis sleppir gengur Høystad-Lunna um bleika akra og slegin tún með málmleitartæki, niðursokkinn í sína helstu ástríðu, að leita fornleifa frá víkinga- og annarri löngu horfinni tíð, en Innlandet-fylki, sem var fylkin Hedmark og Oppland fyrir breytingarnar 1. janúar, er þekkt meðal fornleifafræðinga og -áhugamanna um gervalla heimsbyggðina fyrir þá gnótt forngripa sem þar hefur fundist.

Trúði vart eigin augum

Á sunnudagskvöldið datt Høystad-Lunna heldur betur í lukkupottinn þegar hann var á ferð um akur nokkurn, en hann leitar eingöngu fornra dýrgripa á ræktarlandi. Segir hann í samtali við mbl.is að málmleitartækið hafi þá gefið til kynna hlut úr málmi innan marka skynjara þess svo hann hafi numið staðar og farið að grafa.

„Öxin og jörðin geyma þá best,“ var dómur Kristjáns skrifara …
„Öxin og jörðin geyma þá best,“ var dómur Kristjáns skrifara um Jón biskup Arason og þá feðga, en málmleitartækið og skóflan hafa hins vegar reynst Høystad-Lunna best áhalda við að afhjúpa það sem jörðin geymir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hélt fyrst að þetta væri bara eitthvert járnarusl,“ segir Høystad-Lunna um grip sem lá grunnt í jarðveginum. Hann ætlaði þó ekki að trúa sínum eigin augum þegar hann dró hlutinn úr moldu og áttaði sig á því að hann hélt á mjög heillegu sverði, sem fornleifafræðingar Innlandet-fylkis telja vera 1.200 ára gamalt, frá öndverðri víkingaöld.

„Ég byrjaði á þessu árið 2015,“ segir Høystad-Lunna frá, inntur eftir því hvernig svo óvenjulegt áhugamál hafi vitrast svo ungum manni. „Ætli þetta sé ekki bara verklegi hlutinn af sagnfræðiáhuganum mínum, ég er með barnið mitt aðra hverja viku og vinn fulla vinnu svo þetta er mín leið út úr hversdagsamstrinu,“ segir hann.

Gamla bændasamfélagið drifkrafturinn

Einhverju hafa leiftrandi áhugi og langar gönguferðir með málmleitartæki skilað Høystad-Lunna sem er í góðu sambandi við fornleifafræðingana hjá menningarminjadeild fylkisins, þá Lars Holger Pilø og Kjetil Skare. „Ég hef fundið rúmlega 150 forngripi hér í Ringsaker,“ segir hann. „Það áhugaverðasta sem ég hef fundið er gullmen frá eldri Rómaröld [n. eldre romertid, 0 – 200 e. Kr.] og mjög vel varðveitt og skreytt spenna í fuglslíki frá tíð Mervíkinga [fyrri hluti yngri járnaldar, tímabilið 550 – 793 e. Kr.],“ segir Høystad-Lunna enn fremur frá.

Gullmen frá eldri Rómaröld (0 – 200 e. Kr.) er …
Gullmen frá eldri Rómaröld (0 – 200 e. Kr.) er í uppáhaldi af þeim gripum sem Høystad-Lunna hefur fundið í jörðu síðustu fimm ár, vopnaður málmleitartæki, skóflu og leiftrandi áhuga á fornminjum og sögu. Ljósmynd/Vegard Høystad-Lunna

Hann segir drifkraftinn aðallega sprottinn af miklum áhuga á sögu nærumhverfis hans í Ringsaker. „Það er gamla bændasamfélagið sem dregur mig út á akrana. Að komast í þetta nána samband við þá sem bjuggu hér og lifðu í fyrndinni.“

Plógurinn og herfið eyðingarmátturinn

„Það er mjög sérstakt að finna svona vel varðveitt sverð á ræktarlandi,“ segir Kjetil Skare, fornleifafræðingur og forstöðumaður menningarminjadeildar Innlandet-fylkis, í samtali við mbl.is. Hann segir gripi sem liggja grunnt í jörðu oftast tætta í sundur þegar bændur yrki jörð sína eða brjóti nýtt land til nytja, þar séu plógurinn og herfið skaðvaldar fornminjanna.

„Líklegt er að þetta sverð hafi komið upp úr gröf við nýlega plægingu, ólíklegt er að það hafi legið lengi svo grunnt í jörðu úr því það er svona vel varðveitt,“ segir fornleifafræðingurinn og bætir því við að líkast til sé sverðið frá lokum Mervíkingatíðar eða fyrstu árum víkingaaldar, um árið 800. „Aldur mismunandi gerða norskra víkingasverða er vel þekktur og hægt að aldursgreina sverðin út frá lögun þeirra auk þess sem þau finnast oft í kumlum ásamt öðrum gripum með þekktan aldur.“

Vel varðveitt og skreytt spenna í fuglslíki frá tíð Mervíkinga …
Vel varðveitt og skreytt spenna í fuglslíki frá tíð Mervíkinga sem Høystad-Lunna nefnir sérstaklega úr safni þeirra 150 gripa sem hann hefur fundið. Ljósmynd/Vegard Høystad-Lunna

Skare segir mun eldri gripi hafa fundist á sömu landareign og sverðið, þar af þrjá frá lokum yngri steinaldar fyrir 4.000 árum. „Fyrir mörgum árum fundust þarna brot af öðru sverði, sem var mun verr varðveitt en þetta sverð, og spjótsoddur frá víkingaöld, en við vitum ekki hvar á landareigninni þeir hlutir fundust, finnendur komu með þá hingað. Þarna eru líka kuml sem hafa varðveist í jörðinni og þetta sverð sem fannst núna kemur vafalaust úr einu þeirra,“ segir Skare.

Innlandet sérstætt í fornleifafundum

„Hér var velmegun og hér voru gerðir smíðisgripir úr járni, verkfæri og vopn, sem voru fluttir út og seldir. Þetta var grundvöllur viðskiptalífs hér í grárri forneskju. Járnið færði þeim sem stjórnuðu versluninni og bjuggu á gjöfulustu ræktarjörðunum ríkidæmi og völd. Mörg kumlanna sem hér hafa fundist bera þessu ríkidæmi glöggt vitni,“ útskýrir fornleifafræðingurinn.

Hann segir ýmissa grasa kenna þegar kemur að fornleifafundum í Innlandet og sé svæðið merkilegt á þeim vettvangi fyrir margra hluta sakir. „Hér hefur til dæmis meira en helmingur allra fornminja heimsins, sem fundist hafa í jöklum, uppgötvast og mýrarnar hérna geyma einnig margan leyndardóminn, Innlandet er það fylki landsins þar sem flestar jarðneskar leifar fólks sem var uppi á járnöld hafa fundist í mýrum,“ segir Skare.

Kjetil Skare, fornleifafræðingur og forstöðumaður menningarminjadeildar Innlandet-fylkis, segir sverðið ótrúlega …
Kjetil Skare, fornleifafræðingur og forstöðumaður menningarminjadeildar Innlandet-fylkis, segir sverðið ótrúlega vel varðveitt og líklega hafi plógur bóndans rótað því upp úr gröf og það svo legið um skamma hríð grunnt í akrinum þar til Vegard Høystad-Lunna rambaði á það á sunnudaginn. Ljósmynd/Aðsend

Oft séu mýrarlíkin af fólki sem hafi verið fórnað til að milda, sefa eða þóknast þeim goðmögnum sem járnaldarmenn blótuðu eða höfðu í hávegum. „Þar er komið eitt dæmið um mannfórnir sem sið í Norður-Evrópu,“ segir hann og bætir því við að fornleifafundum í fylkinu hafi fjölgað mjög hin síðari ár. Í fyrra hafi áhugafólk á borð við Høystad-Lunna skilað tæplega 1.000 gripum til menningarminjadeildarinnar.

„Hann bjargaði þessu sverði, og reyndar mörgum öðrum gripum, frá eyðileggingu og okkur finnst þessi vinna hans, og margra annarra sem eru á ferð með málmleitartæki, mjög gott mál, við höfum engan mannskap til að sinna þessu hér á deildinni. Allir þessir fundir hafa grundvallarþýðingu fyrir fornleifarannsóknir framtíðarinnar,“ segir Kjetil Skare fornleifafræðingur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert