Forseti Malí, Ibrahim Boubacar Keita, sagði af sér í nótt eftir að hafa verið tekinn höndum af uppreisnarhópi hermanna í gær. Þetta tilkynnti forsetinn í sjónvarpsútsendingu stuttu eftir miðnætti.
Leiðtogar uppreisnarinnar lofuðu nýjum kosningum í landinu og vonuðust til að aðgerðir þeirra myndu reynast lausn á stjórnmálakrísu í ríkinu.
Mikil mótmæli í kjölfar þingkosninga í mars og apríl höfðu varpað skugga á nýskipaða ríkisstjórn Keita. Spilling, aukin umsvif íslamskra hryðjuverkahópa og stöðnun í hagkerfi landsins hefur valdið mikilli ólgu í vesturafríska lýðveldinu.
Í gær tók hópur hermanna forsetann og forsætisráðherrann höndum og flutti þá í herstöð í námunda við höfuðborgina Bamako, sem hermennirnir höfðu tekið yfir um morguninn.
Fjöldi mótmælenda hafði þegar safnast saman í miðborg Bamako; mótmælendur heimtuðu afsögn forsetans. Þegar fregnir bárust um handtöku leiðtoga landsins brutust út fagnaðarlæti meðal mótmælenda og hermennirnir voru hylltir á götum borgarinnar.
Þegar forsetinn birtist á sjónvarpsskjám landsmanna tilkynnti hann tafarlausa afsögn sína og að ríkisstjórn og þing landsins yrðu leyst upp.
„Ef það þóknast ákveðnum þáttum hersins að ákvarða að þetta muni enda með íhlutun þeirra, hef ég þá nokkurt val?“ sagði forsetinn í útsendingunni. „Ég verð að láta af völdum, því ég vil ekki frekari blóðsúthellingar.“
Ekki hefur fengist staðfest hvort forsetinn hafi enn þá verið í haldi þegar útsendingin átti sér stað.
Nágrannar Malí í Vestur-Afríku hafa fordæmt valdaránið, en áður en forsetinn tilkynnti afsögn sína höfðu aðilar ECOWAS (The Economic Community of West African States) lokað landamærum sínum fyrir Malí og hafið viðskiptaþvinganir gegn ríkinu. ECOWAS gaf út tilkynningu í gær sem varaði við óstjórnskipulegri valdatilfærslu.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun koma saman í dag á neyðarfundi til að ræða ástandið í Malí. Antonio Gutierres, aðalritari SÞ, heimtaði að Keita og forsætisráðherranum yrði sleppt strax og skilyrðislaust.
Yfirvöld í Bandaríkjum og Frakklandi blönduðu sér einnig í umræðuna. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, fordæmdi uppreisnina og bauðst til að styðja málamiðlunarferli til að leysa krísuna í landinu.