Finnar hafa tekið flest ríki Evrópusambandsins af grænum ferðalista og eru aðeins komur frá örfáum löndum án takmarkana. Ísland er ekki lengur á lista Finnlands yfir örugg lönd. Finnsk stjórnvöld kynntu hertar sóttvarnareglur í morgun.
Samkvæmt þeim mega aðeins þeir sem koma frá Ítalíu, Ungverjalandi, Slóvakíu, Eistlandi, Litháen, Georgíu, Rúanda og Suður-Kóreu koma til Finnlands án þess að sýna fram á að þeir hafi ástæðu fyrir ferðalaginu til Finnlands. Allir ferðamenn frá öðrum löndum en þeim sem talin eru upp hér að framan þurfa að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til Finnlands frá og með mánudegi.
Innanríkisráðherra Finnlands, Maria Ohisalo, segir að lönd sem undanfarna mánuði hafa verið talin örugg séu nú komin af öruggum lista. Þar á meðal Ísland sem og Þýskaland.
Frá og með 24. ágúst þurfa ferðamenn sem koma frá Íslandi, Grikklandi, Möltu, Þýskalandi, Noregi, Danmörku, Írlandi, Kýpur, San Marino og Japan að fara í sóttkví í 14 daga og er það nýmæli.
„Landamærastefna Finnlands er sú harðasta í Evrópusambandinu því við viljum viðhalda tiltölulega góðu ástandi varðandi veiruna í Finnlandi,“ sagði Maria Ohisalo á blaðamannafundi í morgun.
Frá því í júní hefur ríkisstjórn Finnlands sagt að miðað yrði við átta ný smit á hverja 100 þúsund íbúa samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnamiðstöð Evrópu. Undantekningar hafa verið frá þessu og miðað í einhverjum tilvikum við 10 ný smit. Þetta eru mun harðari reglur en í Noregi þar sem miðað er við 20 smit.
Í Finnlandi eru nú skráð 5,3 smit á hverja 100 þúsund íbúa. Samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópu eru þau 27,7 á Íslandi, 30 í Danmörku, 13,8 í Noregi og 39,4 í Svíþjóð.
Aftur á móti hefur verið slakað á hömlum á landamærum Finnlands, Svíþjóðar og Noregs með þeim hætti að þeir sem búa við landamærin geta farið landleiðina yfir þau auðveldlega til að sinna daglegum erindum.