Bróðir sjálfsvígsárásarmannsins sem drap 22 á tónleikum Ariönu Grande í Manchester árið 2017 neitaði að vera viðstaddur dómsuppkvaðningu í dag en hann var ákærður fyrir aðild að árásinni.
Kviðdómur dæmdi manninn, Hashem Abedi, sem er 23 ára gamall í dag, sekan um að hafa drepið 22 manneskjur, manndrápstilraunir og sprengjutilræði. Árásin, sem Salman Abedi, 22 ára, framdi er ein mannskæðasta hryðjuverkaárás sem gerð hefur verið í Bretlandi. Yfir 200 særðust í árásinni, sem var í nafni Ríkis íslams.
Hashm Abedi hafði áður rekið verjendur sína og neitað að yfirgefa fangelsið til þess að vera viðstaddur réttarhöldin í London.
Dómarinn í sakamálinu, Jeremy Baker, segir að þrátt fyrir að Abedi hafi verið dreginn fyrir rétt líkt og krafist er við dómsuppkvaðningu hafi hann neitað að koma inn í réttarsalinn og sé enn án verjenda.
„Hann hefur haft öll tækifæri til þess og verið hvattur til að fá verjendur. En hann hefur staðið fast á sínu og ég sætti mig við að hann sé ekki viðstaddur uppkvaðninguna,“ segir Baker.
Fjölskyldur einhverra fórnarlamba árásarinnar sem og þeirra sem lifðu af mættu í réttarsalinn en þar verður ákveðið hversu langan dóm Abedi, sem fæddist í Manchester, fær. Aðrir fylgjast með í gegnum myndútsendingu í Manchester, Leeds, Newcastle og Glasgow.
Baker segir að ekki sé hægt að dæma hann í lífstíðarfangelsi, til að tryggja að hann losni aldrei úr fangelsi, því hann var yngri en 21 árs þegar hann framdi brotið.
Hashem Abedi var í Líbíu þegar bróðir hans, Salman Abedi, gerði árásina á Manchester-leikvanginum 22. maí 2017. Við réttarhöldin kom fram að hann hefði mánuðina á undan aðstoðað bróður sinn við undirbúninginn. Hann útvegaði efnin sem notuð voru við gerð heimatilbúnu sprengjunnar, fann stað til að búa til sprengjuna og geyma og keypti bíl til að flytja búnaðinn.
Þeir sem rannsökuðu sprengjutilræðið segja að bræðurnir beri jafna ábyrgð og séu báðir vígamenn.