Um 2.700 tonn af ammóníumnítrati, álíka mikið og olli hamfarasprengingunni í Beirút fyrr í mánuðinum, eru nú geymd í höfn senegölsku höfuðborgarinnar Dakar.
Frá þessu hafa embættismenn landsins greint í dag.
Að minnsta kosti 181 lést í sprengingunni sem varð 4. ágúst. Þúsundir slösuðust og stór hluti líbönsku höfuðborgarinnar skemmdist illa.
Vanrækslu og spillingu hefur verið kennt um, en efnið var geymt í vöruhúsi við höfnina í mörg ár. Ammóníumnítrat nýtist bæði í sprengiefni og sem áburður.
Senegölsk hafnaryfirvöld segja að um 3.050 tonn af efninu hafi komið til hafnar í Dakar nýlega. Þar af er þegar búið að flytja 350 tonn til Malí.
Þau 2.700 tonn sem eftir eru komast hins vegar ekki leiðar sinnar þangað, þar sem landamærum landsins hefur verið lokað eftir valdaránið á þriðjudag.
„Við höfum beðið eiganda efnisins að gera ráðstafanir til að taka varninginn í burtu frá Senegal,“ segir talsmaður hafnaryfirvalda.