40.000 prófa rússneska bóluefnið

Borgarar í Moskvu, höfuðborg Rússlands klæðast grímum til að verjast …
Borgarar í Moskvu, höfuðborg Rússlands klæðast grímum til að verjast smitum. AFP

40.000 manns munu taka þátt í víðtækum prófunum á fyrsta mögulega bóluefni Rússa gegn COVID-19 sem gæti fengið innlent samþykki. Erlendir rannsóknaraðilar munu sinna eftirliti með prófununum sem hefjast í næstu viku, að sögn skipuleggjenda. Guardian greinir frá. 

Um er að ræða fyrstu upplýsingar sem gerðar eru opinberar um væntanlega rannsókn á bóluefninu. Skaparar þess miða að því að draga úr áhyggjum sumra vísindamanna yfir skorti á gögnum sem Rússar hafa framvísað um bóluefnið og ágæti þess hingað til. 

Rússnesk yfirvöld og vísindamenn halda því fram að bóluefnið, sem kallað er Sputnik V í höfuðið á fyrsta gervihnettinum sem Sovétríkin sendu út í geim, sé öruggt og gefi góða raun. Það hefur þó ekki verið prófað mikið heldur hafa einungis tvær smáar rannsóknir verið gerðar á því. Niðurstöður þeirra hafa ekki verið opinberaðar.

„Upplýsingastríð“ gegn rússneska bóluefninu

Vestrænir sérfræðingar hafa verið efins um ágæti bóluefnisins og varað við notkun þess áður en öllum alþjóðlega samþykktum prófunum og reglugerðum hefur verið framfylgt. 

„Mörg lönd eru í upplýsingastríði gegn rússneska bóluefninu,“ sagði Kirill Dmitriev, yfirmaður rússneska fjárfestingasjóðsins RDIF sem hefur fjárfest í bóluefninu, á kynningarfundi vegna bóluefnisins. Að hans sögn verða gögn um bóluefnið birt í fræðiriti síðar í þessum mánuði. 

Rússum hafa borist beiðnir um allt að milljarð skammta af bóluefninu víðsvegar að úr heiminum. Þeir hafa getu til að framleiða 500 milljónir skammta árlega, að sögn Dmitriev. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert