Steve Bannon, fyrrverandi ráðgjafi Trumps Bandaríkjaforseta, hefur verið handtekinn og ákærður fyrir fjársvik. Málið tengist fjáröflunarherferð til að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Bannon er, ásamt þremur öðrum, sakaður um að hafa svindlað á mörg hundruð þúsund manns sem lögðu fé í verkefnið „Við reisum múrinn“. Alls söfnuðust 25 milljónir dala í sjóðinn, sem samsvarar um 3,4 milljörðum kr., að því er bandaríska dómsmálaráðuneytið greinir frá.
Bannon er sagður hafa fengið rúma milljón dala í gegnum félag sem hann stýrði og var hluti upphæðarinnar, a.m.k. nokkur hundruð þúsund dalir, nýttur í eigin þágu. Fram kemur á vef BBC að hann muni mæta fyrir dómara síðar í dag.
Þeir sem stóðu að fjáröfluninni höfðu lofað því að reisa múr á landi í einkaeigu. Múrinn við landamærin að Mexíkó var eitt af helstu kosningaloforðum Trumps árið 2016.
Audrey Strauss, starfandi ríkissaksóknari syðri hluta New York-ríkis, segir að Bannon, Brian Kolfage, Andrew Badolato og Timothy Shea hafi safnað milljónum dala í því augnamiði undir því yfirskini að féð yrði nýtt til að reisa múr.
Kolfage, sem setti söfnunina á laggirnar, er sagður hafa með leynd dregið sér 350.000 dali sem hann nýtti í eigin þágu.