Reyna að bjarga lífi Navalnís

Sjúkrahúsið í Omsk.
Sjúkrahúsið í Omsk. AFP

Háttsettur læknir á gjörgæsludeild sjúkrahúss í Omsk í Síberíu segir að læknar geri nú allt sem í þeirra valdi stendur til að bjarga lífi helsta andstæðings Vladimírs Pútíns, Alexeis Navalnís.

Navalní var fluttur á sjúkrahúsið eftir að hafa veikst skyndilega um borð í flugvél á leið frá Síberíu til Moskvu. Er talið að eitrað hafi verið fyrir honum að sögn talskonu baráttumannsins.

Hún telur að eitri hafi verið blandað í teið sem hann fékk sér á flugvellinum en það hafi verið það eina sem hann fékk sér um morguninn. 

Alexei Navalní sést hér í minningargöngu um annan gagnrýnanda stjórnvalda …
Alexei Navalní sést hér í minningargöngu um annan gagnrýnanda stjórnvalda í Kerml, Boris Nemtsov. Sá var skotinn til bana af Tsjet­sjenum. AFP

Navalní er 44 ára gamall lögfræðingur að mennt. Hann hefur ítrekað verið fangelsaður fyrir þátttöku í mótmælum. 

Aðstoðaryfirlæknir sjúkrahússins í Omsk, Anatolí Kalinichenko, sagði við fréttamenn áðan að læknar væru ekki bara að sinna starfi sínu – að gera allt sem mögulegt er – heldur einnig að reyna að bjarga lífi hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert