Hvít-Rússar munu aldrei samþykkja forystu Alexanders Lúkasjenkós. Þetta sagði stjórnarandstöðuleiðtoginn Svetlana Tsíkanovskaja á sínum fyrsta blaðamannafundi síðan hún flýði til Litháens frá Hvíta-Rússlandi í kjölfar forsetakosninganna þar í landi í síðustu viku.
Tsíkanovskaja bauð sig fram gegn Lúkasjenkó, sem verið hefur forseti landsins frá 1994, í kosningunum. Niðurstöðurnar, sem segja Lúkasjenkó hafa hlotið 80% atkvæða, eru sagðar falsaðar.
Á blaðamannafundinum sagðist Tsíkanovskaja jafnframt ætla að snúa aftur til Hvíta-Rússlands þegar henni þætti það öruggt.
Hún neitaði að svara spurningum um öryggi sitt og nákvæmar ástæður þess að hún ákvað að flýja heimaland sitt í kjölfar kosninganna, en stuðningsmenn hennar og yfirvöld í Litháen segja að hún hafi ekki átt annarra kosta völ eftir mikinn þrýsting frá hvítrússneskum yfirvöldum á fundi kjörstjórnar í Minsk.
„Það ætti að vera forsetanum ljóst að breytinga er þörf. Ég vona að skynsemin verði ofan á og að á fólkið verði hlustað og aðrar kosningar haldnar,“ sagði Tsíkanovskaja.