Rússneskir læknar hafa veitt leyfi fyrir því að leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar, Alexei Navalní, verði fluttur á brott frá sjúkrahúsi í Síberíu, að ósk ættingja hans.
„Við tókum þá ákvörðun að setja okkur ekki gegn flutningi hans á annað sjúkrahús, það sem ættingjar hans bentu okkur á,“ sagði Anatolí Kalinichenko, aðstoðaryfirlæknir á sjúkrahúsinu.
Fyrr í dag var greint frá því að rússnesk stjórnvöld hefðu veitt þýskum læknum heimild til að ferðast á sjúkrahúsið í Síberíu til að huga að Navalní. Til stendur að flytja hann til Berlín í Þýskalandi til aðhlynningar.
Grunur er uppi um að eitrað hafi verið fyrir honum.