Læknar hafa ekki fundið nein merki um eitur í líkama rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnís segir aðstoðaryfirlæknir sjúkrahússins í Omsk þar sem Navalní liggur þungt haldinn.
„Enn sem komið er hefur ekki fundist eitur í blóði eða þvagi. Ekki eru nein merki um það,“ segir Anatolí Kalinichenko en hann ræddi við blaðamann í Omsk í morgun. Hann segir að Navalní sé of veikburða til að þola flutning frá landinu. Þýsk sjúkraflugvél er á leiðinni til Síberíu en stefnt er að því að flytja hann á sjúkrahús í Þýskalandi.