Tugir elda geisa nánast stjórnlaust

Rýma hefur þurft fjölda heimila í Norður- og Mið-Kaliforníu vegna raðar nýrra kjarrelda sem hafa kviknað í ríkinu. Loftgæði eru afar takmörkuð og hafa um 60 þúsund íbúar verið fluttir á brott. Búist er við að það þurfi að flytja 100 þúsund til viðbótar á brott.

Flestir skógareldarnir hafa kviknað vegna eldinga fyrr í vikunni en afar þurrt er í Kaliforníu um þessar mundir á sama tíma og hitabylgja geisar. 

Undanfarna fjóra daga hafa kviknað yfir 370 nýir kjarreldar og af þeim eru á þriðja tug stórra elda sem enn brenna í Kaliforníu.

Ríkisstjóri Kaliforníu, Gavin Newsom, segir árið 2020 einstakt að ýmsu leyti. Farsótt, óvenjumargar eldingar, hitabylgja og skógareldar. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í ríkinu vegna eldanna. 

Tveir af þeim sem hafa tekið þátt í slökkvistarfinu hafa látist. Annar var þyrluflugmaður sem lést er þyrla hans hrapaði þar sem hann var við slökkvistörf. Hinn var starfsmaður orkufyrirtækisins Pacific Gas and Electric (PG&E) sem var að hreinsa póla og raflínur en fannst látinn í bíl sínum á miðvikudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert