Rússneskir læknar segja að ekki megi flytja Alexei Navalní frá sjúkrahúsinu þar sem hann dvelur í Síberíu þar sem það geti ógnað lífi hans. Talskona hans segir að bannið geti ógnað lífi Navalní þar sem sjúkrahúsið sé ekki nægjanlega vel búið tækjum til að bjarga lífi hans.
Navalní, sem er einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi í Omsk eftir að hafa veikst skyndilega um borð í flugvél á leið frá Síberíu til Moskvu í gær. Talið er að það hafi verið eitrað fyrir honum. Talskona Navalní, Kira Jarmísh, hefur á Twitter eftir yfirlækni sjúkrahússins að ástand Navalní sé óstöðugt og því ekki hægt að flytja hann af sjúkrahúsinu. „Bann við flutningi Alexei ógnar lífi hans. Það kostar hann lífið ef hann verður áfram á Omsk-sjúkrahúsinu án tækjabúnaðar eða greiningar,“ segir Kira Jarmísh á Twitter.
Hún segir að sjúkraflugvél sem eigi að fljúga með hann til Þýskalands lendi fljótlega í Omsk. Bann við flutningi Navalnís ógni lífi hans og nú séu það læknar og fláráð stjórnvöld sem standi á bak við það.
Navalní var lagður inn á sjúkrahúsið í Omsk eftir að hann missti meðvitund um borð í flugvélinni og henni var lent á flugvelli borgarinnar til að koma honum undir læknishendur. Ekki hefur verið greint frá því formlega hvað hrjái hann en stuðningsmenn hans telja að eitrað hafi verið fyrir honum vegna stjórnmálaafskipta hans. Að eitri hafi verið laumað í te hans á kaffiteríu flugvallarins áður en farþegaþotan fór í loftið frá Síberíu.
Þýsk og frönsk yfirvöld hafa boðið fram aðstoð sína og þýskir fjölmiðlar greina frá því að sjúkraflugvél hafi farið frá Nürnberg skömmu eftir miðnætti til að sækja Navalní og flytja hann á sjúkrahús í Þýskalandi.
Samstarfsfólk Navalní segir að sjúkrahúsið í Omsk sé illa búið tækjum og læknir hans, Anastasia Vasilyeva, hefur óskað eftir aðstoð stjórnvalda við að flytja hann á sjúkrahús í Evrópu.
Bæði lækningabúnaður og sérfræðingar eru um borð í þýsku flugvélinni að sögn þýsku friðarsamtakanna Cinema for Peace.
Charite-sjúkrahúsið í Berlín er reiðubúið að taka við Navalní að sögn framkvæmdastjóra friðarsamtakanna, Jaka Bizilj.
Samtökin eru vongóð um að Navalní fái heimild til að yfirgefa Rússland í dag að því er segir í frétt BBC.