Fimmtán ára látin á hótelherbergi

Frá miðbænum í Sarpsborg. Hótelið, sem stúlkan fannst látin á, …
Frá miðbænum í Sarpsborg. Hótelið, sem stúlkan fannst látin á, er lengst til hægri á myndinni. Ljósmynd/Vegfarandi

Maður á þrítugsaldri var úrskurðaður í einnar viku gæsluvarðhald í Héraðsdómi Halden í Noregi í dag, grunaður um að hafa ekki komið 15 ára gamalli stúlku til hjálpar á herbergi á Hotel Olav Digre í miðbæ Sarpsborg á fimmtudaginn þegar hún var í þannig ástandi að hún taldist ósjálfbjarga af fíkniefnaneyslu en stúlkan fannst látin á hótelherberginu síðdegis þann dag.

Lögreglu barst tilkynning um látna manneskju á einu herbergja hótelsins í Sarpsborg, um 90 kílómetra suður af Ósló, um klukkan 14:30 og héldu lögregla og sjúkralið á staðinn en þegar varð ljóst er þangað var komið að stúlkunni yrði ekki bjargað. Starfsfólk hótelsins vissi þá ekki af málinu og fékk fyrst veður af því þegar starfsmaður neyðarlínunnar hringdi þangað og sagði frá tilkynningunni.

Skjólstæðingur barnaverndar

„Þetta er 15 ára gömul stúlka sem er ekki upprunalega frá Sarpsborg en hefur haldið hér til upp á síðkastið,“ sagði Kai Andersen, stjórnandi rannsóknarinnar, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í gær. Að sögn norskra fjölmiðla voru barnaverndaryfirvöld með málefni hinnar látnu til meðferðar.

Maðurinn, sem er 26 ára gamall, hafði búið á hótelinu í viku og að sögn hótelstjórans, Mohsin Rana, verið að mestu til friðs fyrir utan nokkur tilfelli þegar hann hefði í augljósu vímuástandi átt í ótilgreindum samskiptum við næturvörð hótelsins.

Tæknimenn lögreglu voru við vinnu sína á hótelinu þar til í gær og var allri hæðinni, sem stúlkan fannst á, lokað. Vinnur lögregla út frá þeirri kenningu að maðurinn, sem handtekinn var á staðnum, hafi verið til staðar á herberginu þegar stúlkan lést. Segir lögregla enn fremur að ekki hafi sést nein teikn um að ofbeldi hafi átt sér stað og muni krufning leiða dánarorsök í ljós en hún er talin hafa verið of stór skammtur fíkniefna.

„Skelfilega sorglegt“

Vitað er að maðurinn og stúlkan þekktust og mun hún hafa komið á hótelið og heimsótt hann. Að sögn skipaðs verjanda mannsins, Kristin Morch, var skjólstæðingur hennar ekki sáttur við kröfu lögreglunnar um gæsluvarðhald en héraðsdómarinn í Halden féllst á þau rök lögreglu að hætta væri á að maðurinn spillti sönnunargögnum gengi hann laus.

„Hér ríkir sorg, þetta var svo ung stúlka,“ segir hótelstjórinn Rana. „Allri hæðinni var lokað og svo tóku þeir [lögreglan] hina látnu með sér og þann sem var handtekinn, við vitum ekkert meira.“

„Þetta er skelfilega sorglegt, svo ekki sé talað um þegar svona ung manneskja á í hlut,“ sagði Sindre Martinsen-Evje, bæjarstjóri í Sarpsborg, í samtali við norska dagblaðið VG í gær. „Hvorugt þeirra sem hlut eiga að máli hafa notið [félagslegrar] þjónustu hér í Sarpsborg. Ég vona að lögreglan komist til botns í því hvað hér átti sér stað.“

NRK

VG

Aftenposten

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert