„Ég vil ekki að það verði bara munað eftir þeim sem plastpokum. Þau voru fólk og ég vil að allir viti það,“ segir Gina Jaschke, frænka Jessicu Lewis sem var myrt og komið fyrir í ferðatösku. TikTok-myndband af því þegar bandarísk ungmenni fundu ferðatöskuna á strönd í Seattle fór sem eldur í sínu um netheima.
Áhorf á myndbandið eru orðin fleiri en 29 milljónir en þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þá neitar TikTok að fjarlægja myndbandið. Umfjöllun BBC.
Ungmennin fundu aðra ferðatösku skammt frá hinni og í henni reyndist vera lík kærasta Jessicu, Austin Wenner. Síðar fann lögregla líkamshluta í poka í sjónum skammt frá þeim stað sem ferðatöskurnar fundust. Jessica, sem var 35 ára gömul, og Austin, sem var 27 ára, höfðu verið skotin til bana.
Lögregla hóf í kjölfarið rannsókn og handtók leigusala kærustuparsins sem hefur verið ákærður fyrir morð af yfirlögðu ráði.
Í tilfinningaþrungnu viðtali segir Gina frá því þegar hún fékk símtal frá móður sinni sem sagði henni að Jessica hefði verið myrt. Hún lýsir því hversu erfitt það er fyrir fjölskylduna að vita til þess að hennar verði minnst sem líks í ferðatösku vegna þess að TikTok neitar að fjarlægja myndbandið.
Gina kennir ungmennunum þó ekki um þrátt fyrir að þau hafi sett myndbandið á samfélagsmiðilinn vinsæla heldur er hún þakklát. Án þeirra hefðu þau mögulega aldrei vitað hvað varð um Jessicu og Austin.
„Myndbandið fór út um allt. Enginn vissi að það myndi gerast, þessir krakkar vissu það ekki. Ég þakka krökkunum fyrir því það var möguleiki á því að enginn hefði fundið þau og þá hefðum við aldrei vitað hvað kom fyrir þau.“
„Ég hefði haldið að þau [TikTok] hefði tekið myndbandið úr dreifingu þegar það kom í ljós hver þau voru. Að líkin í ferðatöskunum, sem lyktuðu hræðilega, væri fólk sem búið væri að bera kennsl á. Ég hefði haldið að þau [TikTok] myndu viðurkenna það og að myndbandið yrði tekið úr dreifingu af virðingu við þau,“ sagði Gina.
„Þau áttu fjölskyldur, þau áttu börn. Ég vil að fólk viti hveru þau voru. Þau voru góðhjörtuð,“ segir hún um kærustuparið sem hún lýsir einnig sem óaðskiljanlegum.
Eins og áður segir neitar TikTok að fjarlægja myndbandið og gerir það með þeim rökum að það brjóti ekki gegn reglum þar sem að það sést ekki beinlínis í líkamsleifar.