„Við höfum ekki séð neitt í líkingu við þetta í mörg, mörg ár,“ segir Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, um gríðarlega umfangsmikilla skógarelda í ríkinu. Að minnsta kosti sex eru látnir og á annað hundruð þúsund hafa flúið heimili sín. Newsom hefur óskað eftir aðstoð frá Ástralíu og Kanada.
Afar þurrt er í Kaliforníu um þessar mundir vegna hitabylgju. Um 12 þúsund eldingar urðu í ríkinu á 72 klukkustundum og talið er að einhverjar af þeim hafi leitt til þess að kviknaði í gróðri í Norður- og Mið-Kaliforníu.
Tveir stærstu eldarnir, kallaðir SCU Lightening Complex og LNU Lightening Complex, hafa farið yfir tæplega 600 þúsund ekrur.
Fleiri en 12 þúsund slökkviliðsmenn berjast við skógareldana og Daniel Berland, aðstoðarslökkviliðsstjóri í Kaliforníuríki, sagði að slökkvistarfi miði áfram en að von væri á frekari eldingum sem gætu kveikt fleiri elda.
Slökkvilið frá nærliggjandi ríkjum, Oregon, Nýja-Mexíkó og Texas, hafa boðið fram aðstoð sína að sögn Newsom. En í ljósi þess hversu umfangsmiklir eldarnir eru og hversu alvarlegt ástandið er sagðist hann hafa óskað eftir aðstoð frá „bestu slökkviliðsmönnum í heimi“ frá Kanada og Ástralíu.
„Við erum ekki barnaleg í mati okkar á hversu mannskæðir eldarnir eru og þess vegna er mjög mikilvægt að þið farið eftir rýmingarfyrirmælum og takið þau alvarlega,“ sagði Newsom við íbúa Kaliforníu á blaðamannafundi.