Karlmaður á fertugsaldri, búsettur í Hong Kong, hefur greinst aftur með kórónuveiruna fjórum og hálfum mánuði eftir að hann greindist fyrst með veiruna.
Samkvæmt frétt New York Times, þar sem vitnað er í tilkynningu frá háskólanum í Hong Kong, er um að ræða fyrsta staðfesta tilfellið þar sem einstaklingur smitast aftur af veirunni.
Þessar fregnir eru sagðar benda til þess að ónæmi gagnvart veirunni dugi skemur hjá sumum en áður var talið. Það gæti flækt þróun bóluefnis.
33 ára maðurinn fékk væg einkenni í vor og er einkennalaus núna.
Hann greindist með veiruna fyrir nokkrum dögum eftir að hann kom til Hong Kong eftir ferðalag til Spánar.
Vísindamenn við háskólann í Hong Kong telja fullvíst að maðurinn hafi smitast af spænsku afbrigði veirunnar, frekar en að um sé að ræða leifar gömlu sýkingarinnar frá því í vor.
Dæmi eru um fólk sem talið er hafa smitast aftur en hingað til hafa það verið gamlar sýkingar. Nú þykir hins vegar ljóst að umræddur maður hafi smitast aftur af kórónuveirunni.