Hugsanlega dáin á Snapchat-mynd

Stúlkan fannst látin á Hotel Olav Digre í Sarpsborg á …
Stúlkan fannst látin á Hotel Olav Digre í Sarpsborg á þriðja tímanum á fimmtudaginn og reyndist 26 ára gamall karlmaður, sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald á laugardaginn, hafa birt mynd af stúlkunni á Snapchat, þá hugsanlega látinni. Ljósmynd/Google Maps

Maðurinn, sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Halden í Noregi um helgina, eftir að 15 ára stúlka fannst látin á hótelherbergi sem hann hafði til umráða í Sarpsborg í síðustu viku, birti mynd af stúlkunni á samfélagsmiðlinum Snapchat sem sýnir hana hugsanlega látna.

Myndin birtist skömmu áður en lögreglu barst tilkynning um látna manneskju á herberginu á Hotel Olav Digre í miðbæ Sarpsborg síðdegis á fimmtudag og segja heimildarmenn norska dagblaðsins VG að stúlkan hafi litið út fyrir að vera látin á myndinni.

„Ég get staðfest að mynd af henni var á „Story“ grunaða á Snapchat áður en neyðarviðbragðsaðilum var tilkynnt um atvikið,“ segir Kai Andersen, stjórnandi rannsóknarinnar, við VG. „Nú skiptir það lögregluna öllu máli að komast að því hverjar aðstæðurnar voru þegar myndin var tekin og hvenær hún var tekin.“

Kristin Morch, verjandi hins grunaða, vill ekki ræða Snapchat-myndina við fjölmiðla og sagði við mbl.is að hún staðfesti ekki annað en að skjólstæðingur hennar, sem er 26 ára gamall, hefði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á laugardaginn.

Verður krufin í dag

Enn er dánarorsök stúlkunnar ókunn en hún verður krufin í dag og er reiknað með bráðabirgðaniðurstöðu á miðvikudaginn. Andersen segir lögreglu nú önnum kafna við að ræða við vitni, þar á meðal starfsfólk hótelsins, auk þess sem til stendur að yfirheyra grunaða á nýjan leik.

Maðurinn neitar að hafa aðhafst nokkuð refsivert og mótmælti gæsluvarðhaldsúrskurðinum á laugardag. Hefur hann þó sagst munu aðstoða lögreglu á alla lund við að varpa ljósi á atburðarásina á hótelinu.

Hann er skjólstæðingur norsku vinnu- og félagsmálastofnunarinnar NAV og hefur glímt við langvarandi fíkn auk geðrænna vandamála. Nýlega gerði NAV honum að flytja úr félagslegri íbúð sem hann hafði til umráða í Sarpsborg og útvegaði stofnunin honum herbergið á Hotel Olav Digre á meðan beðið var eftir annarri íbúð. Þangað heimsótti stúlkan hann í síðustu viku en hún var einnig skjólstæðingur norskra félagsmálayfirvalda, þó ekki í Sarpsborg.

Jon Stanley Fredriksen, forstöðumaður NAV í Sarpsborg, vill ekki ræða málið við fjölmiðla en starfsfólk hótelsins segir frá því að maðurinn hafi ítrekað sést í augljósu vímuástandi meðan á dvöl hans þar stóð auk þess sem hann hafi haft uppi ýmsan skarkala um nætur.

VG

TV2

Bergens Tidende

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert