„Þú munt deyja einn“

Brenton Tarrant hefur játað að hafa drepið 51 í hryðjuverkaárásum …
Brenton Tarrant hefur játað að hafa drepið 51 í hryðjuverkaárásum á Nýja-Sjálandi. AFP

Tveimur mönnum sem lifðu af hryðjuverkaárás í nýsjálensku borginni Christchurch í fyrra mistókst að halda sig við fyrirframundirbúinn vitnisburð við réttarhöldin yfir vígamanninum í dag. Báðir beindu reiði sinni að árásarmanninum, Brenton Tarrant, í réttarsalnum.

Þetta er í fyrsta skipti sem Tarrant þarf að mæta fórnarlömbum sínum augliti til auglitis frá því hann beindi byssum sínum að þeim 15. mars 2019. Tarrant hefur játað að hafa drepið 51, reynt að drepa 40 og framið hryðjuverk við tvær moskur í borginni.

AFP

Talið er fullvíst að Tarrant, sem er 29 ára gamall, verði fyrstur til þess að verða dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á lausn, í Nýja-Sjálandi. Tarrant hefur ekki sýnt nein svipbrigði við réttarhöldin sem hófust í gær á sama tíma og fórnarlömb og ættingjar þeirra sem létust hafa átt erfitt með að láta það vera að skeyta skapi sínu á morðingjanum. 

„Ég sá enga iðrun eða skömm í augum hryðjuverkamannsins og hann iðrast einskis svo ég ákvað að lesa ekki undirbúna yfirlýsingu heldur leyfa honum að finna sársaukann sem ég glími við,“ sagði Mirwais Waziri við dómarann í málinu, Cameron Mander. „Í dag ert þú hryðjuverkamaðurinn og við sem múslimar erum ekki hryðjuverkamennirnir.“

Zuhair Darwish, sem missti bróður sinn í árásinni sagði: „Þú hegðar þér líkt og hugleysingi og þú ert huglaus. Líf þitt er eins og hjá rottu og þú átt það skilið. Þú munt deyja einn, eins og farsótt sem allir forðast.“

„Sanngjörn refsing fyrir hann væri dauðarefsing. Ég veit að samkvæmt nýsjálenskum lögum er bannað að taka fólk af lífi. En því miður er hann ekki mannlegur og á ekki skilið að það sé réttað yfir honum sem manneskju,“ bætti Darwish við. 

Eitt vitnið biðlaði til dómarans um að veita vígamanninum hörðustu refsingu sem völ er á. Að þessi maður muni aldrei sjá til sólar að nýju. „Þessi maður þarf að vera í fangelsi ævilangt. Eða eins og móðir hans hefur sagt: Það er eitthvað að í höfðinu á honum. Hann er veikur einstaklingur, hann er ekki manneskja.“

AFP

Á sama tíma og vitni sögðu Tarrant djöfulinn og skíthæl sat hann nánast hreyfingarlaus og sýndi lítil viðbrögð. 

Ambreen Naeem missti bæði eiginmann og son í árásinni. Eiginmaður hennar, Naeem Rashid, hefur verið hylltur sem hetja fyrir að hafa ráðist gegn Tarrant í Al Noor-moskunni þannig að honum fipaðist og hann féll í gólfið. Á meðan náðu aðrir gestir moskunnar að flýja út. Tarrant náði að rísa á fætur og skaut Rashid til bana. 

„Frá því eiginmaður minn og sonur létust hef ég aldrei náð eðlilegum svefni. Ég efast um að mér takist það nokkurn tíma,“ sagði Naeem og bætti við að eðlilegt sé að morðinginn gjaldi fyrir það ævilangt að hafa eyðilagt líf hennar. 

„Þú ert dauður fyrir mér“

Sayyad, sonur Noraini Milne, var einn þeirra sem lést í árásinni. Hún benti á Tarrant í réttarsalnum í dag og sagði: „Þú ert þegar dauður fyrir mér. Sama hvaða refsing bíður þín þá verður hún aldrei fullnægjandi.“

Tarrant skaut Mohammad Siddiqui í handlegginn þegar hann kom í Al Noor-moskuna. Siddiqui talar ekki um Tarrant undir nafni heldur sem djöfulinn. „Já ég kalla hann djöfulinn því hann kom inn í hús Guðs með illvirki í huga, að drepa saklaust fólk. Þú drapst drauma vina og ættingja minna með huglausum gjörðum þínum.“

Yfir 60 munu bera vitni í málinu þá fjóra daga sem réttarhöldin standa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert