Að minnsta kosti 46 eru látnir og hundruð heimila eyðilögð eftir skyndiflóð í Afganistan. Mikil rigning hefur verið víða um landið, en flest skyndiflóðanna hafa verið norðan við höfuðborgina Kabúl í nótt.
Björgunaraðgerðir hófust í morgun og reynt verður að bjarga fólki úr húsarústum í Charikar, höfuðstað Parwanhéraðs.
„Það eru tvær fjölskyldur í hverfinu okkar sem eru enn fastar undir rústunum,“ segir Abdul Majid, íbúi Charikar. „Við þurfum fleiri björgunaraðila til að hjálpa okkur.“
Í yfirlýsingu frá heilbrigðisráðuneyti Afganistans segir að 46 hafi látist og 80 slasast enn sem komið er. Wahida Shahkar, takskona héraðsstjóra Parwan, segir að 66 séu látnir og yfir 90 slasaðir. Þá segir Shahkar að yfir 500 heimili hafi gjöreyðilagst.
Ljósmyndir á samfélagsmiðlum sýna bíla og önnur farartæki fjótandi um götur borgarinnar.
Tilkynnt var um skyndiflóð víðar í landinu í nótt, í héruðunum Nangarhar, Panjshir, Wardak, Loghar, Paktika og Kapisa, en ekki hefur verið tilkynnt um dauðsföll.