Letetra Widman, systir Jacobs Blakes sem var skotinn sjö sinnum í bakið af lögreglumanni í Wisconsin-ríki á sunnudag, segist ekki vera sorgmædd heldur reið.
„Sumir hafa haft samband við mig og sagt að þeim þyki það sem kom fyrir fjölskyldu mína leitt. Ekki vera miður ykkar því þetta hefur verið að koma fyrir fjölskyldu mína í langan tíma. Lengur en ég get sagt frá. Þetta kom fyrir Emmett Till. Emmett Till er fjölskyldan mín. Philando, Mike Brown, Sandra. Þetta hefur verið að koma fyrir fjölskyldu mína og ég hef grátið fyrir alla sem hafa lent í þessu. Þetta er ekkert nýtt,“ sagði Widman við fjölmiðla í gær og vísaði til þriggja svartra Bandaríkjamanna sem hafa verið myrtir af lögreglu auk Emmetts Tills, 14 ára drengs sem var tekin af lífi án dóms og laga árið 1955.
„Ég er ekki sorgmædd. Ég er ekki miður mín. Ég er reið. Og ég er þreytt. Ég hef ekki grátið einu sinni. Ég hætti að gráta fyrir mörgum árum. Ég er dofin. Ég hef horft á lögregluna myrða fólk sem lítur út eins og ég í fleiri ár,“ sagði Widman.
Bróðir hennar Jacob er nú á sjúkrahúsi og faðir hans tilkynnti í gær að hann væri lamaður fyrir neðan mitti.
Blake var skotinn mörgum sinnum af stuttu færi í borginni Kenosha þar sem hann var að fara inn í bíl ásamt þremur börnum sínum síðdegis á sunnudag. Að sögn lögmanna fjölskyldunnar skemmdi ein byssukúla lögreglumannsins mænu Blake. Hinar hæfðu og skemmdu líffæri, svo sem maga, ristil, lifur og handlegg.