„Við höfum enga ástæðu til þess að efast um niðurstöðu læknanna á sjúkrahúsinu,“ segir Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, en hann hvetur til þess að mál rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnís verði rannsakað.
Þýskir læknar telja að eitrað hafi verið fyrir Navalní í síðustu viku en hann var fluttur á milli heims og helju til Þýskalands um helgina.
Stuðningsmenn Navalnís telja að eitri hafi verið komið fyrir í tebolla hans á flugvelli í Síberíu. Læknar sem rannsökuðu Navalní á sjúkrahúsinu í Omsk voru á öðru máli og töldu að veikindin stöfuðu af efnaskiptasjúkdómi. Eftir að hafa verið rannsakaður í Berlín kváðu þýskir sérfræðingar upp þann úrskurð að um eitrun væri að ræða en stjórnvöld í Rússlandi neita því harðlega.
Stoltenberg er í Berlín þar sem hann á fund með varnarmálaráðherrum Evrópusambandsríkjanna. „Það sem við þurfum núna er gagnsæ rannsókn til að finna út hvað gerðist og tryggja að þeir sem bera ábyrgð verði látnir gjalda þess.“
Ekki er hafin sakamálarannsókn á eitruninni og talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar, Dmitrí Peskov, segir að ekki sé ástæða til þess nema staðfest sé að um eitrun sé að ræða.