Forsetafrú Bandaríkjanna, Melania Trump, hvetur til sameiningar bandarísku þjóðarinnar og sendir öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna fráfalls ættingja í kórónuveirufaraldrinum samúðarkveðjur.
Melania Trump ávarpaði landsfund Repúblikanaflokksins í gærkvöldi og sló nýjan tón í erindi sínu þar sem hún sýndi fórnarlömbum kórónuveirufaraldursins samúð og minnti á sína eigin sögu sem innflytjandi í Bandaríkjunum. Sameining þjóðar þrátt fyrir ólíka kynþætti og biðlaði til fólks að stöðva ofbeldið og gripdeildir.
Forsetafrúin flutti erindið í Rósagarði Hvíta hússins og segja fjölmiðlar að hún hafi talað á öðrum nótum en aðrir í Trump-fjölskyldunni á landsfundinum en áður höfðu börn Donalds Trumps af fyrri hjónaböndum, Eric og Tiffany, flutt ávörp.
Kórónuveiran var nánast alfarið hunsuð af öðrum en Melaniu Trump á landsþinginu en 178 þúsund Bandaríkjamenn hafa látist af völdum veirunnar og efnahagur landsins er verulega laskaður af völdum hennar. Melania Trump hóf erindi sitt á því að biðja fyrir þeim sem eru veikir og þjást. Hún lét algjörlega vera að ráðast á Joe Biden, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, heldur sagði einfaldlega: „Ég vil ekki nota þennan dýrmæta tíma í að ráðast á andstæðinginn.“
Annað sem vakti athygli fréttaskýrenda er áhersla hennar á hlut innflytjenda en Melania Trump varði innflytjendur í ræðu sinni. Hún hvatti bandarísku þjóðina til að taka sér tíma í að skoða hlutina frá fleiri sjónarhornum. Að hlusta á aðra. „Við getum lært svo margt hvert af öðru,“ sagði hún.
Melania Trump hældi eiginmanni sínum fyrir að koma til dyranna eins og hann er klæddur. Hann leyni því aldrei hvað honum finnist um hlutina. „Fullkomin heilindi er nokkuð sem við sem þegnar eigum skilið af hálfu forseta okkar. Hvort sem þér líkar það eður ei þá veistu alltaf hvað honum finnst.“